31.07.2020

Föstudagsmolar forstjóra 31. júlí 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Reykjalundur aftur í gang eftir sumarlokun í skugga Covid

Eftir tveggja vikna hlé er hefur Reykjalundur nú opnað aftur. Eðlilega fer starfsemin hægt af stað en miðað er við að allt verði komið á fullan kraft mánudaginn 10. ágúst. Því miður erum við ekki laus við Covid óværuna og því er óljóst hversu mikil áhrif hún mun hafa á daglega starfsemi það sem eftir er ársins. Reykjalundur mun kynna næstu skref í viðbrögðum gegn Covid á þriðjudaginn.
Það er samt alltaf gott og hreinlega nauðsynlegt fyrir alla að taka frí með reglubundnum hætti og hlaða “batteríin” fyrir komandi vetur. Frábært að sjá að þið flest séuð búin að ná því. Þar sem ég er nýkominn til starfa er sumarleyfið mitt í styttri kantinum þetta sumarið. Sjálfur var ég við störf í síðustu viku og notaði ég tímann til að grúska aðeins í ýmsum fróðleik, skýrslum, samningum og fleiru sem tengist starfseminni; mjög lærdómsríkur tími fyrir mig. Meðal annars fór ég í heimsókn á Hlein, þar sem þessi fína mynd var tekin, en þar var mér boðið í pizzuveislu.
Þó það sé gott og gaman að komast í frí, er líka alltaf eitthvað gott við að komast til baka í hefðbundna hversdagsleikann svo ég segi bara: “Velkomin aftur!”

Heimsóknir til “teyma” Reykjalundar

Þessar vikurnar er ég að heimsækja “teymin” hér á Reykjalundi og kynna mér starfsemi þeirra. Teymin eru samstarfsvettvangur ólíkra fagaðila sem koma að endurhæfingu fólksins okkar. Þverfaglega starfið okkar byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar við að setja upp endurhæfingaráætlun miðaða við þarfir og getu hvers og eins. Vinnan er heildræn og markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, líkamlegri og félagslegri færni og mögulegt er.
Á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér á Reykjalundi hef ég séð að mikilvæg sérstaða okkar er þessi öflugu og vel mönnuðu teymi þar sem ólík sjónarhorn sérfræðinga blandast vel. Þó ég hafi ekki náð að heimsækja öll teymin ennþá er samt mjög gaman og áhugavert að kynnast því faglega og flotta starfi sem innan teymanna okkar er unnið.

Reykjalundur í fréttum

Það er alltaf gaman þegar fjallað er um Reykjalund, starfsemina okkar eða starfsfólk á jákvæðan hátt í fjölmiðlum. Sem betur fer gerist það öðru hverju. Nú í júlí höfum við aðeins verið í fréttunum.
Meðfylgjandi er áhugavert viðtal við Magdalenu Ásgeirsdóttur lækni í Læknablaðinu:
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/0708/nr/7411
Hér er svo að finna skemmtilegt viðtal við Fríðu Brá sjúkraþjálfara í Fréttablaðinu:
https://www.frettabladid.is/lifid/besta-tilfinningin-a-standa-a-fjallstoppi/
Hér er loks umfjöllun á Stöð2/visir.is um Reykjalund og endurhæfingu einstaklinga sem greinst hafa með Covid:
https://www.visir.is/g/20201992645d/folk-sem-greindist-med-koronuveiruna-en-fann-fyrir-litlum-einkennum-tinist-inn-i-endurhaefingu

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðrar og gleðilegar verslunarmannahelgar!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka