10.07.2020

Föstudagsmolar forstjóra 10. júlí 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Reykjalundar-Tjaldurinn tímgast

Ég held að allir sem hafa verið á Reykjalundi undanfarnar vikur hafi fylgst spenntir með Reykjalundar-tjaldinum sem gerði sér hreiður í byrjun júní í rauðagangsportinu, en þetta er ferhyrnt svæði með glerganga á allar hliðar. Líklega mjög góður staður að mörgu leiti þegar vel er að gáð fyrir þennan þjóðarfugl frænda okkar í Færeyjum. Tjaldurinn okkar hefur legið á eggjum síðustu vikurnar og verið heldur betur í sviðljósi þeirra sem fara um helstu gangana hér á Reykjalundi, sjálfsagt án þess að gera sér grein fyrir frægð sinni. Það var því mörgum gleðiefni þegar mætt var til vinnu á mánudagsmorgun að tveir ungar voru komnir í hreiðrið eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Svo miklar bollaleggingar hafa verið í húsinu um uppeldisaðferðir og aðstoð við að koma ungviðinu á legg, að Marta rannsóknarstjóri sá sig knúna til að leita sérfræðiráðgjafar fuglafræðinga um málin. Svörin voru í stuttu máli þau að sérfræðistéttir Reykjalundar ættu að halda að sér höndum sem allra mest og láta náttúruna hafa sinn gang.
Við fylgjumst því bara áfram spennt með gangi mála og auglýsum hér með eftir nöfnum á þessa gleðigjafa okkar.

Muna „Out-of-office“ fyrir fríið

Nú eru sumarfríin aldeilis að ganga í garð. Af því tilefni vil ég góðfúslega minna ykkur á þá kurteisu reglu að setja Automatic Replies (Out-of-office) á tölvupóstinn sinn þar sem fram kemur hvenær þið komið aftur og við hvern eigi að hafa samband ef erindið getur ekki beðið þar til komið er til baka úr fríinu. Þetta getur létt samstarfsfólki og ýmsum aðilum utan Reykjalundar störf sín. Einnig er gott að láta móttökuna vita ef fólk er í fríi á öðrum tímum en sumarlokanirnar.

Gleðilegt sumar!

Í dag hefst tveggja vikna sumarhlé hér á Reykjalundi þar sem við lokum starfseminni fram til 27. júlí. Ég vil óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs sumars. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegar sumarstundir hvort sem það er í faðmi fjölskyldu og vina heimavið, á ferðalögum eða bara í hvíldarslökun með sjálfum ykkur. Aðalatriðið er að allir (sem allra flestir) nái að hlaða vel batterýin eftir erfiðan vetur og ég hlakka til að sjá ykkur spræk að fríi loknu enda margt spennandi framundan í Reykjalundarlífinu.

Spakmæli dagsins:

„Ef það að tala fallega við blóm hjálpar þeim að vaxa, ímyndaðu þér hvað það getur gert að tala fallega við fólk“


Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka