26.06.2020

Föstudagsmolar forstjóra 26. júní 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Takk fyrir góðar móttökur!

Nú er fyrsta mánuðinum í starfi hjá mér að ljúka hér á Reykjalundi. Mestur hluti tímans hjá mér hefur farið í að kynnast starfseminni og ykkur ágæta samstarfsfólk. Bæði hef ég verið að hitta einstaka starfsmenn og stjórnendur en ekki síður að hitta ýmsa hópa. Á þessum tíma hef ég náð að kynnast mörgum enda fjölbreytt, áhugavert og merkilegt starf sem fer fram hér á Reykjalundi.
Í gær fór ég til dæmis í eldhúsið. Auðvitað er lykilatriði til að ná fram góðum starfsanda, ánægðu starfsfólki og fullum afköstum að vera með gott eldhús og góðan mat. Gunnar kokkur og hans fólk er greinilega með þetta allt á hreinu. Jafnframt voru þau búin að vinna heimavinnuna sína og vita hvernig á að koma sér í mjúkinn hjá forstjóranum því þau voru ekki lengi að galdra fram vöfflur og rjóma þegar ég kom - og við smelltum í eina „sjálfu“ sem fylgir með.
Ég á ennþá eftir að heimsækja nokkrar deildir og einingar og hitta mörg ykkar og það ferli heldur áfram næstu vikur. Í næstu viku ætla ég meðal annars að byrja að heimsækja teymin okkar en ég hef sett mér það markmið að fá að sitja einn fund hjá öllum teymum.
Það er gaman að sjá og kynnast starfseminni hér á Reykjalundi. Það geta allir verið stoltir sem tengjast þessari starfsemi okkar en þó að byggingar séu auðvitað mikilvægar stendur samt starfsemin og fellur með góðu starfsfólki og að sem flestir starfsmenn nái að blómstra og njóta sín í starfi.
Jafnframt vil ég þakka kærlega fyrir góðar og jákvæðar móttökur en alls staðar þar sem ég hef komið hefur mér verið mjög vel tekið.
Ég hlakka því mikið til að kynnast ykkur betur og fá að vera með ykkur í að gera glæsilegan Reykjalund enn flottari og betri!

10. ágúst er dagurinn!

Þessa dagana eru ýmsir byrjaðir að tínast í sumarfrí og frá og með kl. 16:00 þann 10. júlí hefst tveggja vikna sumarhlé starfseminnar hjá okkur. Af ýmsum ástæðum er sumarhléið með óvenjulegu sniði hjá okkur þetta árið og það verður forvitnilegt að heyra frá ykkur í haust um kosti og galla þessa fyrirkomulags miðað við fyrirkomulagið sem verið hefur síðustu ár.
Gríðarlega mikilvægt mál fyrir okkur er að ná upp fullri nýtingu sem fyrst eftir sumarhlé. Eins og kynnt hefur verið, er miðað við að mánudaginn 10. ágúst sé allt komið í fulla starfsemi enda metnaðarfullt verk að uppfylla þjónustusamning okkar við Sjúkratryggingar Íslands en þar erum við skuldbundin til að skila af okkur ákveðnum fjölda meðferðardaga. Það verður auðvitað að gera og allir að leggjast á árarnar sem einn maður.
Ég veit að með góðum vilja og samstilltu átaki mun okkar glæsilegi starfsmannahópur standast þessa áskorun með miklum sóma.

Afmælisdagskrá Reykjalundar í október

Eins og kannski mörg ykkar vita á Reykjalundur 75 ára afmæli á þessu ári. Framkvæmdastjórn, í samráði við nýja stjórn Reykjalundar, hefur nú ákveðið að halda upp á afmælið með viðeigandi og veglegum hætti en um merkistímamót er að ræða fyrir alla sem tengjast sögu Reykjalundar sem og sögu endurhæfingar á Íslandi. Þetta verður í október en hvernig haldið verður upp á afmælið er í skoðun og verður kynnt um leið og það liggur nánar fyrir.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon

Til baka