19.06.2020

Föstudagsmolar forstjóra 19. júní 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Samskiptasáttmáli Reykjalundar

Í fyrra vann Embætti landlæknis hlutaúttekt á starfsemi Reykjalundar og skilaði skýrslu með nokkrum ábendingum um hvað betur mætti fara. Ein ábendinga skýrslunnar var að vinna úr þeirri vanlíðan sem hefur skapast hjá starfsfólki. Sérstaklega er nefnt í skýrslunni að ein leið gæti verið að vinna að samskiptasáttmála á Reykjalundi líkt og Landspítali hefur gert. Drög að slíkum sáttmála voru unnin á tíma starfsstjórnarinnar og kynnt fyrir nokkrum vikum.
Lokatillögur samskiptasáttmálans verða send ykkur til kynningar fljótlega og vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að skoða vel.
Svo er auðvitað mikilvægt að við verðum öll sem eitt dugleg að tileinka okkur leiðbeiningar og vinnureglur sáttmálans og er ég sannfærður um að það verður ekki flókið verkefni fyrir þann flotta starfsmannahóp sem hjá okkur starfar.

Fundað með trúnaðarmönnum

Það er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki og stofnanir að vera með skilvirkt trúnaðarmannakerfi. Ekki bara út frá sjónarhorni starfsfólks heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir stjórnendahóp viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.
Vegna þessa voru trúnaðarmenn allra stéttarfélaga boðaðir á sameiginlegan fund í vikunni. Þar voru auk mín frá Reykjalundi þau Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri og Anna Stefánsdóttir formaður stjórnar. Meginefni fundarins var að upplýsa og kynna fyrir trúnaðarmönnum nýtt rekstrarform Reykjalundar (Reykjalundur endurhæfing ehf.) og ferlið sem nú er í gangi vegna breytinganna. Jafnframt var ákveðið að forstjóri og mannauðsstjóri myndu funda reglulega með trúnarmönnum, einu sinni til tvisvar ár hvert og verður næsti fundur í haust. Meðfylgjandi mynd tók Garðar sjúkraþjálfari fyrir okkur á fundinum en auk hans sóttu fundinn eftirfarandi trúnaðarmenn: Helma Rut Einarsdóttir frá Sálfræðingafélagi Íslands, Hjalti Kristjánsson frá Fræðagarði, Ingibjörg Ólafsdóttir frá Iðjuþjálfafélagi Íslands, Rakel María Oddsdóttir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Sólrún Maggý Jónsdóttir frá Eflingu, Ágústa Dúa Jónsdóttir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Halldóra Lydía Þórðardóttir frá Sjúkraliðafélagi Íslands og Astrid Sörensen frá Sameyki.

Ráðgjafanefnd og aðalfundur Landspítala

Síðasta föstudag sótti ég aðalfund Landspítala. Landspítalinn er auðvitað hornsteinn íslenska heilbrigðiskerfisins og langstærsta stofnunin þar. Fundurinn fór fram í skugga Covid og því aðeins boðsgestir viðstaddir en aðrir gátu fylgst með gegnum streymi. Venjulega sækja aðalfundinn um nokkur hundruð manns. Þó Reykjalundur hafi ekki verið á dagskrá fundarins er gaman að segja frá því að á spjalli við ýmsa stjórnendur spítalans heyrði ég ekkert nema ángægju með samstarf við okkur og margir frekari samstarfsmöguleikar gætu verið uppi í framtíðinni.
Þó ég sé mikill áhugamaður um íslenska heilbrigðiskerfið var nú aðal ástæða fyrir veru minni á fundinum sú að síðustu ár hef ég setið í Ráðgjafanefnd Landspítala en það er níu manna nefnd sem heilbrigðisráðherra skipar. Nefndin skal vera forstjóra og framkvædastjórn spítalans til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans. Skal nefndin m.a. fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans. Formaður nefndarinnar er Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands en sjálfur var ég skipaður í nefndina í tenglsum við mitt fyrra starf. Ánægjulegt er að ég hef verið að beðinn að sitja áfram í nefndinni, þrátt fyrir vistaskipti mín og get ég ekki litið á það öðruvísi en ákveðna viðurkenningu á mikilvægi Reykjalundar í heilbrigðiskerfinu og heiður fyrir okkur að eiga aðalmann í ráðgjafanefndinni.

Að lokum er sjálfsagt að óska okkur öllum gleðilegs kvennréttindadags en þann 19. júní ár hvert er þess minnst að þennan dag árið 1915 hlutu íslenskar konur (reyndar bara fjörutíu ára og eldri), kosningarétt til Alþingis. Nokkrum árum síðar öðluðust konur hér á landi kosningarétt til jafns á við karla og síðan þá hefur auðvitað - og sem betur fer - margt fleira breyst til að koma Íslandi í fremstu röð hvað varðar jafnrétti.

Góða helgi!

Pétur Magnússon.

Til baka