05.06.2020

Föstudagsmolar forstjóra 5. júní 2020

Ágæta samstarfsfólk á Reykjalundi,

Fyrst af öllu langar mig að þakka kærlega fyrir jákvæðar viðtökur, kveðjur og hlýjar móttökur síðan tilkynnt var um ráðningu mína hér á Reykjalundi.

Ég hóf formlega störf s.l. þriðjudag og er rétt byrjaður að ná að fóta mig í Reykjalundarsamfélaginu og rata um húsið - meðal annars tókst mér að rata úr matsalnum á skrifstofuna mína alveg hjálparlaust í gær.

Ég hef aðeins ferðast um og hitt mörg ykkar (þó ekki nærri öll) og líst mjög vel á það sem ég hef séð. Hef þó ekki þorað í starfsmannaleikfimina ennþá en hver veit hvað gerist síðar? Það er ljóst að á Reykjalundi fer fram fjölbreytt og merkileg starfsemi. Næstu vikur hjá mér fara örugglega að mestu leiti í lærdóm; að reyna að kynnast þessu mikilvæga starfi okkar og fá góða innsýn. Vitur maður kenndi mér að ég hafi fæðst með tvö eyru og einn munn og ætti að nota þessa líkamsparta í þessum hlutföllum (það tekst samt ekki alveg alltaf). Þess vegna mun ég smá saman á næstu vikum óska eftir fundum með ýmsum stjórnendum, starfsmönnum, teymum og hópum til að fá að hlutsta og  kynnast því sem þið eruð að gera. Sjálfsagt kem ég líka með einhverjar misgáfulegar spurningar á ykkur sem gætu reynt aðeins á þolinmæðina. Vonandi takið þið vel í þessar beiðnir þegar þær berast ykkur og ekki örvænta þó þær komi ekki strax – svona umfangsmikilli starfsemi verður að kynnast í litlum bitum í einum þannig að þetta upphafslærdómsferli mitt mun taka einhvern tíma. Sjálfagt verð ég að læra eitthvað nýtt á hverjum degi næstu árin – en þetta er nú allt bara mjög spennandi!

Eins og þið sjáið er titillinn á þessum pósti ”Föstudagsmolar forstjóra”. Mig langar að taka með mér hingað af mínum fyrri vinnustað þá hefð að skrifaður verði vikulegur föstudagspistill frá forstjóra sem sendur er í tölvupósti til alls starfsfólks en einnig birtur á heimasíðunni okkar og á facebook -  undir heitinu FÖSTUDAGSMOLAR. Pistillinn er fyrst og fremst hugsaður fyrir ykkur, ágæta samstarfsfólk, en öllu áhugafólki um Reykjalund og endurhæfingu er að sjálfsögðu frjálst að lesa.

Markmiðið með þessu er fyrst og fremst að lífga upp á Reykjalundar-lífið á jákvæðan hátt og koma ýmsum upplýsingum, skoðunum og hvatningu forstjóra (og fleiri) á framfæri.

Vonandi leggja pistlarnir örlítið lóð á vogaskálina til að gera ykkur starfsfólkið upplýstara - og gera skemmtilegan Reykjalund ennþá skemmtilegri.

Til þess að pistlar þessir nái markmiði sínu er mikilvægt að þeir séu ekki of langir en jafnframt er nauðsynlegt að fá gestahöfunda öðru hverju úr stjórnenda- og starfsmannahópnum – svo þið fáið nú ekki algera hundleið á mér. Vonandi munu allir, sem leitað verður til sem gestahöfundar, taka vel í þá beiðni frá mér enda er sannarlega af mörgu merkilegu og áhugaverðu að taka!

Um leið og ég óska ykkur góðrar helgar vil ég senda forkólfum starfsmannafélagsins bestu þakkir fyrir flott bingó á miðvikudaginn sem ég heyri að hafi vakið lukku og tekist vel. Því miður gat ég ekki tekið þátt en það hefði líklega litlu breytt þar sem ég er ekki mjög góður bingóspilari – kem þó inn að krafti næst.

Jafnframt vil ég ítreka þakklæti mitt fyrir góðar móttökur og hlakka til að kynnast ykkur betur og því magnaða og merkilega starfi sem unnið er á Reykjalundi!

Pétur Magnússon

Til baka