27.05.2020

Nýtt rekstrarfélag stofnað um Reykjalund

Heilbrigðisráðherra tilnefndi í nóvember 2019 starfsstjórn yfir Reykjalundi til að stýra stofnuninni meðan unnið væri að endurskoðun stjórnskipulags stofnunarinnar sem var samstarfsverkefni starfsstjórnar og SÍBS, eiganda Reykjalundar.

Í dag kynnti starfsstjórnin starfsfólki Reykjalundar framtíðarfyrirkomulag stjórnunar endurhæfingarmiðstöðvarinnar. M.a var kynnt nýtt skipurit sem tekur gildi 1. júní og var unnið í samráði við starfsfólk.
Á fundinum kom fram að stofnað hefur verið sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi. Nýja félagið verður óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem verður óháð stjórn SÍBS. Eins og kynnt var nýlega hefur  Pétur Magnússon verið ráðinn forstjóri og kemur hann til starfa 1. júní n.k.

Stjórn hins nýja hlutafélags skipa
Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaður
Gunnar Ármannsson, lögmaður, meðstjórnandi
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, meðstjórnandi
Arna Harðardóttir, sjúkraþjálfari, varamaður

Á myndinni eru frá vinstri;
Gunnar Ármannsson, Anna Stefánsdóttir, Pétur Magnússon, Haraldur Sverrisson og Arna Harðardóttir.

Stefán Yngvason formaður starfsstjórnar er ánægður með ávinning af starfi starfsstjórnarinnar; „Að loknu þessu sex mánaða tímabili starfsstjórnar Reykjalundar er ég sannfærður um að við höfum fundið mjög farsæla lausn og að framtíðin er björt fyrir Reykjalund og endurhæfingarþjónustu í landinu. Á Reykjalundi er metnaðarfullt fagfólk og með þessum breytingum er stigið stórt skref til að tryggja að Reykjalundur verði áfram í fararbroddi á endurhæfingu í íslensku heilbrigðiskerfi“.

Hlutverk SÍBS til framtíðar sem eiganda Reykjalundar endurhæfing ehf. verður fyrst og fremst að fjármagna uppbyggingu á staðnum. Daglegur rekstur endurhæfingarþjónustunnar mun áfram byggjast á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Tryggt verður að launakjör, lífeyrisréttindi og önnur réttindi og skyldur starfsmanna Reykjalundar haldist óbreytt hjá nýja félaginu.

Til baka