12.05.2020

Pétur Magnússon ráðinn forstjóri Reykjalundar

Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS frá og með 1. júní n.k.

Pétur er lyfjafræðingur að mennt og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun.

Pétur hefur farsæla reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, en hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum sl. 12 ár. Á þeim árum hefur hann verið í fararbroddi í öldrunarþjónustu á landsvísu og leitt umfangsmikla uppbyggingu Hrafnistuheimilanna og átt frumkvæði að nýjungum og breytingum í þjónustu við aldraða. Hann hefur víðtæka reynslu af samskiptum við stjórnvöld og félagasamtök sem mun reynast mikilvægt fyrir framtíðarþróun endurhæfingarstarfsemi á Reykjalundi.

Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga (SÍBS) og vinnur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Um þjónustuna gildir þjónustusamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjalundar og þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.

Til baka