15.10.2019

Skipun í starf framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi

Ólafur Þór Ævarsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi.

Starf framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi var auglýst laust til umsóknar í lok ágúst 2019 í samræmi  við ákvörðun þáverandi forstjóra. Ólafur Þór var einn umsækjenda um hina auglýstu stöðu. Læknaráð Reykjalundar var forstjóra til álits og ráðuneytis um lýsingu á hæfniskröfum vegna stöðunnar. Umsóknarfrestur rann út 15. september s.l.

Ólafur Þór Ævarsson mætir þeim kröfum sem gerðar eru í auglýsingu um menntun, reynslu, þekkingu og færni til að gegna stöðunni. Ólafur Þór er ráðinn í kjölfar matsferlis, annars vegar stöðunefndar framkvæmdastjóra lækna hjá Embætti landlæknis sem skilaði niðurstöðu sinni og mat umsækjandann hæfan og hins vegar ráðningarnefndar Reykjalundar sem mat Ólaf Þór einnig hæfan.

Stöðunefnd framkvæmdastjóra lækninga hjá Embætti landlæknis skilaði eftirfarandi umsögn um Ólaf: „Umsækjandi er sextugur sérfræðingur í geðlækningum með starfsreynslu langt umfram það sem stöðunefnd metur. Gegnt yfirlæknisstörfum í Svíþjóð og hérlendis og starfar nú sem geðlæknir og framkvæmdastjóri hjá eigin fyrirtæki. Hann hefur lokið doktorsprófi í sérgrein sinni og verið virkur í vísindastörfum þess utan. Starfað mikið að forvörnum, félagslegri endurhæfingu og haldið fjölda fyrirlestra um slík mál og verið ráðgjafi fyrirtækja, síðustu árin mest í eigin fyrirtæki sem framkvæmdastjóri og geðlæknir.“

Í mati ráðningarnefndar Reykjalundar kemur fram eftirfarandi umsögn: „Ólafur Þór hefur áratugareynslu af stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Í sérnámi í geðlækningum hlaut hann þjálfun með áherslu á endurhæfingu vegna geðsjúkdóma. Auk áralangra starfa sem sérfræðingur í geðlækningum var hann á 3 ára tímabili yfirlæknir og um tíma einnig staðgengill sviðsstjóra lækna á ýmsum geðdeildum við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg og jafnframt yfirlæknir í 3 ár á geðdeild Landspítala. Einnig hefur hann áratuga reynslu af því að stýra teymum í forvörnum, sálfélagslegri vinnuvernd, endurhæfingu og geðheilbrigðisþjónustu. Síðustu 18 ár hefur Ólafur Þór hefur rekið eigið fyrirtæki á sviði forvarna og starfsendurhæfingar og stýrt þar teymi heilbrigðisstarfsmanna. Í störfum sínum fyrir Forvarnir hefur hann jöfnum höndum unnið að ráðgjöf og lækningum þar sem endurhæfing er stór hluti meðferðarstarfsins. Ólafur Þór hefur skýra og skipulega sýn á það hvernig hann mun takast á við verkefni framkvæmdastjóra lækninga. Hann hefur ríkan vilja og metnað til að ná árangri í starfi. Ólafur býr yfir hæfni til frumkvæðis og nýsköpunar í starfi, hefur skipulagshæfni, góða leiðtogahæfni og mikla hæfni í mannlegum samskiptum. Hann hefur jafnframt góða framtíðarsýn á framþróun í starfsemi Reykjalundar.“

Framkvæmdastjóri lækninga heyrir undir forstjóra og situr í framkvæmdastjórn. Hann ber faglega-, fjárhagslega- og starfsmannaábyrgð í  samræmi við gildandi stjórnskipulag og ákvæði laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Starfið veitist Ólafi Þór Ævarssyni frá og með 15. október 2019 og er hann boðinn velkominn til starfa á Reykjalundi.

Til baka