17.01.2017

Hlustað á rödd sjúklingsins

Jónína Sigurgeirsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir hafa gefið út MS rannsókn Jónínu frá árinu 2006, í bókinni: Patients’ Self-reported Needs in Rehabilitation. Jónína er gæðastjóri Reykjalundar og sérfræðingur í endurhæfingarhjúkrun og Sigríður er prófessor við Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri.

Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk meti líðan sjúklinga sem innskrifast í endurhæfingu með hjálp sinnar eigin samskiptafærni og flétti það mat sitt saman við forgangsröðun sjúklings á þörfum sínum. Sjúklingar sem innskrifast í endurhæfingu geta átt í ákveðinni tilvistarkreppu, sem gerir þá viðkvæma. Flestir hafa þörf fyrir að bjarga sér sem mest sjálfir, þrátt fyrir ýmsar breytingar sem rekja má til sjúkdóma eða slysa. Það að þurfa að aðlagast nýjum einkennum og e.t.v. breyttri sjálfsmynd er áskorun sem hægt er að hjálpa sjúklingi við, með einstaklingshæfðri og markvissri umönnun, andlegum stuðningi og raunhæfri markmiðssetningu. Fræðsla til sjúklinga þarf að vera einstaklingshæfð, miða að því að styrkja þá og efla til sjálfsbjargar. Í rannsókninni sem hér er birt var markmiðið að hlusta á rödd sjúklinga, en þannig geta fengist mikilvægar upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem leitar leiða til að bæta þjónustuna.

Til baka