03.07.2015

Starfsmaður Reykjalundar lýkur meistaraprófi

Anna Sólveig Smáradóttir sjúkraþjálfari á taugasviði Reykjalundar varði meistararitgerð sína við Læknadeild Háskóla Íslands þann 30.júní síðastliðinn.

Ritgerðin heitir: Áhrif sérhæfðrar jafnvægisþjálfunar á líkamsstarfsemi, athafnir og þátttöku hjá fólki með MS sjúkdóm. Umsónakennari og leiðbeinandi var Þjóðbjörg Guðjónsdóttir sjúkraþjálfari og lektor við námsbraut í sjúkraþjálfun. Aðrir í meistaranámsnefnd voru Guðrún Karlsdóttir yfirlæknir á taugasviði Reykjalundar og Dr. Jóhanna Jónsdóttir sjúkraþjálfari. Prófdómarar voru G.Þóra Andrésdóttir og Haukur Hjaltason. Prófstjóri var Helga Ögmundsdóttir.

Inngangur: Jafnvægisskerðing er þekkt hjá fólki með MS sjúkdóm og getur leitt til dettni, hræðslu við að detta, minni getu til að komast um og minni þátttöku í samfélagi.

Tilgangur rannsóknar: Að kanna áhrif fimm vikna sérhæfðrar jafnvægisþjálfunar á allar víddir Aþjóðlega flokkunarkerfisins á færni, fötlun og heilsu þ.e. líkamsstarfsemi, athafnir, þátttöku og persónulega þætti hjá fólki með miðlungs til mikil einkenni vegna MS (4.0-6.5 á EDSS færnikvarða).

Aðferð: Þátttakendur voru sex og tóku þátt í 15 tíma hópþjálfun sem var sérhæfð athafnamiðuð jafnvægisþjálfum. Snið rannsóknarinnar var annars vegar einliðasnið, ABA vendisnið, sem var notað fyrir tvær mælingar „Upp og gakk“ á tíma með vitrænni þraut og „Staðið á öðrum fæti.“ Gerðar voru vikulegar mælingar í 12 vikur. Hins vegar var notað hálftilraunasnið fyrir sama hóp þar sem mælingar voru gerðar við upphaf, lok og þremur vikum eftir þjálfun. Mælingar sem þá bættust við voru: 10 m gönguhraði, seiling, hliðarseiling, kraftur fráfærsluvöðva í mjöðmum, stöðujafnvægi undir mismunandi skynáreiti (CTSIB) og spurningalistar um jafnvægisöryggi (A-Ö), þátttöku og lífsgæði (MSIS-29). Í einliðasniðinu var gerð sjónræn greining hjá hverjum þátttakanda á breytileika, stigi, stefnu og halla stefnunnar, ásamt tölfræðigreiningu þar sem reiknaður var staðalfrávikaborði út frá meðaltali á grunnskeiði og mælingar á íhlutunarskeiði bornar saman við hann. Friedmans dreifigreining fyrir endurteknar mælingar var gerð fyrir öll prófin á hópnum. Marktektarmörk (α) voru sett við 0,05. Wilcoxon signed rank eftirpróf voru gerð til að skoða mun milli mælinga.

Niðurstöður: Fimm þátttakendur luku þjálfun. Einn þátttakandi náði ekki að ljúka við allar mælingarnar. Samkvæmt sjónrænni greiningu á stigi og stefnu tóku þrír þátttakendur framförum á íhlutunarskeiðinu á „Upp og gakk“ prófinu en fjórir á meðferðarhléskeiðnu. Tölfræðigreining sýndi að tveir þeirra bættu sig marktækt á meðferðarhléskeiðinu. Sjónræn greining sýndi að þrír gátu staðið lengur á hægri fæti og tveir á vinstri fæti og var það staðfest tölfræðilega hjá einum þátttakenda þegar staðið var á vinstri fæti. Framfarir héldu áfram eða geta hélst óbreytt eftir að meðferð lauk í „Upp og gakk“ prófinu og hjá fjórum þáttakendum þegar þeir stóðu á vinstri fæti en gekk til baka þegar staðið var á hægri fæti. Friedmans dreifigreining fyrir endurteknar mælingar sýndi marktækan mun á Staðið á hægri fæti (p=0,0388), hægri hliðarseilingu (p=0,0388) og kraft hægri fráfærsluvöðva í mjöðm (p=0,0363). Eftirpróf (Wilcoxon signed rank procedures) sýndu ekki milli hverra tveggja mælinga munurinn var (p=0.017) en þegar mælingarnar voru skoðaðar betur kom í ljós að mesti munur lá á milli mælinga fyrir þjálfun og strax eftir fyrir styrk fráfærsluvöðva og staðið á hægri fæti og milli mælinga  fyrir þjálfun og við eftirfylgd fyrir hliðarseilingu. Þjálfunin hafði jákvæð áhrif á jafnvægisöryggi í athöfnum og þátttöku en framfarir voru ekki marktækar. Ályktanir: Þessi rannsókn gefur vísbendingar um að sérhæfð jafnvægisþjálfun hafi jákvæð áhrif á nokkra þætti sem flokkast undir líkamsstarfsemi og athafnir, sem krefjast bæði stöðu-og hreyfijafnvægis, hjá fólki með miðlungs til mikil einkenni vegna MS. Frekari rannsóknir með fleiri þátttakendum þarf til að styðja þessar niðurstöður.

Til baka