02.07.2015

Vísindafólk frá Reykjalundi á norrænni lungnaráðstefnu

Dagana 11.-13. júní 2015 tók lungnateymi Reykjalundar þátt í 47. norrænu lungnaráðstefnunni (NLC2015), sem var haldin í Osló.

Lungnateymið nýtti ráðstefnuna sem starfsdag sinn á þessu vori og þar kynnti gæðastjóri Reykjalundar einnig rannsóknarniðurstöður. Ásdís Kristjánsdóttir forstöðusjúkraþjálfari kynnti niðurstöður rannsóknar sem gerð var í samvinnu milli Reykjalundar og Landspítala Háskólasjúkrahúss um þindarhreyfingar sjúklinga með langvinna lungnateppu og lungnaþembu. „Diaphragm movements among patients with severe COPD and emphysema in standing forward leaning position with support of the forearms“, María Ragnarsdóttir, Hans Beck, Magdalena Ásgeirsdóttir, Pétur Hannesson, Skúli Óskar Kim and Ásdís Kristjánsdóttir. Rannsókn þessi er önnur í röðinni, um áhrif framhalla stöðu með stuðningi undir framhandleggi á lungnasjúklinga, í hvíld og við mæði.  Ásdís og félagar komust að þeirri niðurstöðu að þindin hjá fyrrgreindum sjúklingum er virk í framhalla stöðunni bæði í hvíld og við mæði. Niðurstöðurnar eru nú notaðar við endurhæfingu lungnasjúklinga á Reykjalundi þar sem notast er við framhalla stöðuna í þjálfun m.a. á þrekhjóli, göngubretti, stafgöngu og í slökun.

Jónína Sigurgeirsdóttir gæðastjóri kynnti rannsókn sem hún gerði ásamt prófessor Helgu Jónsdóttur, Guðbjörgu Pétursdóttur og Aldísi Jónsdóttur, um árangur þverfaglegrar meðferðar við tóbaksfíkn, sem boðin er á Reykjalundi. Niðurstöður Jónínu og félaga hennar benda til þess að meðferð við tóbaksfíkn í endurhæfingu skili góðum árangri, eða um 25% að meðaltali. Marktækur munur er þó á árangri meðferðarinnar milli sjúklingahópa. Samkvæmt niðurstöðunum næst bestur árangur hjá fólki með lungnasjúkdóma, eða um 40% og er það í samræmi við niðurstöður fyrri rannsóknar um árangur meðferðar við tóbaksfíkn á lungnasviði. Mikilvægt er að standa vörð um meðferð sem skilar góðum árangri, en jafnframt benda niðurstöður rannsóknarinnar til að leita þurfi leiða til að bæta árangur annarra sjúklingahópa.

Til baka