16.05.2025

Föstudagsmolar 16. maí 2025 - Samstíga um málefni offitu á Íslandi.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Sólin er aldeilis farin að skína þessa dagana og veðurspáin er áfram ljómandi - vonandi gefur þetta fögur fyrirheit um flott sumar. Það er svo æsispennandi júróvision framundan þannig að það stefnir í mjög góða helgi og vonandi nær gleðin sem skín af VÆB-drengjunum okkar að skila sér til þjóðarinnar.
Hér koma molar vikunnar en gestahöfundur í dag er Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir yfirlæknir efnaskipta- og offituteymis sem segir okkur frá mjög áhugaverðri vinnustofu sem hún tók þátt í nýlega. 

Áfram VÆB og Íslandi – Góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur




Föstudagsmolar 16. maí 2025 - Samstíga um málefni offitu á Íslandi.

Þann 5. maí síðastliðin var haldin vinnustofan, Samstíga um málefni offitu á Íslandi, á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Efnaskipta og offituteyminu var boðið að senda nokkra fulltrúa á vinnustofuna og fóru þau Karen, Hjalti, Guðlaugur, Olga, Helga Guðrún og Jórunn fyrir hönd þess. Einnig tóku þátt fulltrúar Félags fagfólks um offitu og fór Guðrún Þuríður sem einn af fulltrúum félagsins og fulltrúar heilsugæslunnar, meðal annars Edda Ýr, næringarfræðingur. Við höfum verið svo lánsöm að hafa Eddu Ýr í heimsókn hjá okkur á Reykjalundi síðastliðna mánuði. 

Í febrúar 2024 var gefin út skýrsla á vegum embætti landlæknis sem bar heitið Stefnumarkandi áherslur í forvörnum,heilsueflingu og meðferð – tillögur að aðgerðum varðandi offitu, holdafar, heilsu og líðan. Á bakvið skýrsluna stóð öflugur starfshópur fagfólks og sjúklinga sem og starfsmenn embættis landlæknis. Guðlaugur sjúkraþjálfari var hluti af þessum starfshóp en gríðarleg vinna var lögð í þessa ítarlegu skýrslu (hana má lesa á netinu). Í kjölfar útgáfu skýrslunnar var ákveðið að skipa verkefnastjóra yfir málaflokknum innan heibrigðisráðuneytisins og hefur Svava Björk Jónasdóttir, hjúkrunarfræðingur í efnaskipta og offituteyminu sinnt stöðu verkefnastjóra þar síðan í byrjun árs. Hluti af vinnu Svövu var að skipuleggja og halda utan um vinnustofuna. 

Markmið vinnustofunnar voru að kortleggja helstu áskoranir tengdar aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með offitu og skapa yfirsýn um sértækar forvarnir, greiningar- og meðferðarferli. Þátttakendur í vinnustofunni unnu að því að móta raunhæfar tillögur um aðgerðir til úrbóta á þjónustuúrræðum og komu með tillögur að forgangsröðun þeirra. Síðast en ekki síst var eitt af helstu markmiðum vinnustofunnar að efla tengsl og þveraglega samvinnu allra haghafa þvert á þjónustustig. 

Þáttakendur í vinnustofunni voru fulltrúar faghópa og sjúklingasamtaka. Á vinnustofunni voru kynningar um tvö verkefni, rannsóknarverkefnið Kraftmikir krakkar, sem byggir á lífsstílsmeðferð fyrir börn með offitu og foreldra þeirra á heilsugæslu, og tilraunaverkefni um flutning kvenna úr mæðraeftirliti yfir í heilsueflandi móttöku. Kynnt var vinna sjúkraþjálfara á heilsugæslum, þjónusta á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrir einstaklinga með sykursýki og offitu, vinna efnaskipta og offituteymis Reykjalundar sem og störf Samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra og Félags fagfólks um offitu. Fyrir utan kynningar unnu þátttakendur í hópum að mismunandi verkefnum og úrlausnum var skilað inn í lok hvers þeirra. 

Undirbúningur, skipulag og utanumhald vinnustofunnar voru til fyrirmyndar og dagurinn bæði eflandi og fræðandi. Jákvæður andi var á meðal þátttakenda og greinilegur vilji til skilgreina næstu skref í að bæta þjónustu og fyrir einstaklinga með offitu. Afurð vinnustofunnar verður síðan kynnt í aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins. Við í efnaskipta og offituteyminu erum þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessari vinnu og auðvitað stolt af því að hafa Svövu í okkar teymi. 

Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir,
Yfirlæknir Efnaskipta- og offituteymis
 

Til baka