ICF

Alþjóðlega flokkunarkerfið um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Function, Disabilities and Health) eða ICF kom út árið 2001. Í flokkunarkerfinu er leitast við að samþætta andstæð sjónarhorn, þ.e. sjónarhorn læknisfræðinnar, sem lítur á fötlun sem einstaklingsvanda og félagsleg sjónarhorn sem líta á fötlun sem vandamál sem á rætur að rekja til samfélagsins.

Meginmarkmiðið flokkunarkerfisins er að samræma og staðla orðfæri og skapa umgjörð til að lýsa heilbrigðisástandi og heilbrigðistengdu ástandi fólks. Ólíkir þættir heilsu eru tilgreindir í kerfinu auk heilsutengdra þátta er lúta að velferð (svo sem menntun og störf). ICF byggist á lífsálfélagslegri (biopsychosocial) hugmyndafræði, sem er sett fram myndrænt sem samspil heilsufars, færni og aðstæðna.

Samspil í ICF 

Skýringarmyndin sýnir hvernig færni einstaklings á ákveðnu sviði ákvarðast af flóknu samspili heilsufars og aðstæðna (þ.e. umhverfis- og einstaklingsbundinna þátta). Hin gagnvirku áhrif ólíkra heilda hafa í för með sér að íhlutun eða inngrip á einum stað getur komið af stað breytingum annars staðar. Færni er yfirhugtak ICF og nær yfir alhliða líkamsstarfsemi, athafnir og þátttöku, á sama hátt og fötlun er yfirhugtak fyrir skerðingu, hömlun við athafnir og takmarkaða þátttöku. Litið er á færni og fötlun sem virka víxlverkun milli heilsufarsvanda (sjúkdóma, skerðinga, áverka, áfalla, o.s.frv.) og aðstæðna. Aðstæður eru bæði umhverfisþættir og einstaklingsbundnir þættir.

Einstaklingsbundnir þættir eru ekki flokkaðir í ICF vegna hins mikla félags- og menningarlegs fjölbreytileika sem þar kemur til, en þeir vísa til atriða eins og kyns, kynþáttar, aldurs, menntunar, hreysti, lífsstíls, áhuga, venja og spjörunarstíls. Notendur ICF ákveða hvort og hvernig þeir skoða þessa þætti ef þörf krefur. 

  • Líkamsstarfsemi er lífeðlisfræðileg starfsemi líkamskerfa (sálræn starfsemi meðtalin).
  • Líkamsbygging er líffærafræðilegir hlutar líkamans, svo sem líffæri og útlimir og einingar þeirra.
  • Skerðingar eru vandamál tengd líkamsstarfssemi eða líkamsbyggingu, það er merkjanleg frávik eða vöntun.
  • Athöfn er verk eða gjörð sem einstaklingur innir af hendi.
  • Þátttaka er félagsleg aðild einstaklings að daglegu lífi.
  • Hömlun við athafnir er erfiðleikar einstaklings við að inna af hendi verk eða gjörðir.
  • Takmörkuð þátttaka er erfiðleikar sem einstaklingur upplifir í tengslum við félagslega aðild sína að daglegu lífi.
  • Umhverfisþættir eru hinar efnislegu, félagslegu og skoðanamótandi aðstæður sem fólk býr við.

Þýðing ICF á íslensku er samstarfsverkefni Landlæknisembættisins og Háskólans á Akureyri. Frumgerð þýðingarinnar er birt á vef Landlæknisembættisins SKAFL.is og er þar hægt að fletta í ICF og leita í texta.

Embætti landlæknis og Háskólinn á Akureyri gáfu út handbók um ICF í íslenskri þýðingu í febrúar 2016: Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni fötlun og heilsu, stutt útgáfa. Hægt er að panta bókina hjá Embætti landlæknis eða kaupa hana hjá Bóksölu stúdenta.

Hugmyndafræði ICF hefur smátt og smátt verið að hasla sér völl á nokkrum fagsviðum Reykjalundar. Þrjú svið á Reykjalundi eru í fararbroddi hvað þetta varðar, það eru tauga- og hæfingarsvið, starfsendurhæfing og lungnasvið.

Í apríl 2012 var skipaður vinnuhópur um ICF innleiðingu á Reykjalundi. Hópnum var falið að vinna að því að innleiða flokkunar og skráningarkerfi ICF í starfið og sjúkraskrá á Reykjalundi.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til víðtækrar notkunar ICF. Með ICF er unnt að draga upp lýsandi þversnið af færni, fötlun og heilsu einstaklings á ólíkum sviðum. Flokkunarkerfið lætur í té hugmyndafræðilega umgjörð fyrir upplýsingar sem nýtast í heilbrigðisþjónustu. Sem dæmi um slíkt má nefna forvarnir, heilsueflingu og eflingu þátttöku með því að fjarlægja eða minnka samfélagslegar hindranir og ýta undir félagslegan stuðning og hvetjandi úrræði. ICF kemur einnig að góðum notum við rannsóknir á heilbrigðiskerfinu er lúta að mati og stefnumótun.

Heimildir: 8, 9, 10