Geðheilsuteymi
Endurhæfing á geðheilsusviði Reykjalundar miðar að því að styðja einstaklinga í að finna leiðir til að lifa með sínum áskorunum, bæta lífsgæði og auka virkni í daglegu lífi. Unnið er með andlega, líkamlega og félagslega þætti eftir því sem við á. Endurhæfingin byggist á samvinnu margra fagstétta og er sniðin að þörfum hvers og eins. Því er meðferðin talsvert mismunandi milli einstaklinga. Mikilvægt er að viðkomandi geti tekið virkan þátt í endurhæfingunni.
Hjá geðheilsuteymi fer fram endurhæfing vegna þunglyndis, kvíða og fleiri andlegra erfiðleika. Margir eiga að baki erfiðan uppvöxt, hafa orðið fyrir áföllum og verið undir langvarandi álagi. Oft er því um fjölþættan vanda að ræða, þ.e. líkamlegan, andlegan og félagslegan.
Geðheilsuteymi sinnir sjúklingum með greinda kvíðaröskun, þunglyndi, áfallastreitu, síþreytu, kulnun og sállíkamleg einkenni.
Sérstakar frábendingar Geðheilsuteymis:
- Persónuleikaraskanir sem þarfnast sérhæfðrar langtíma meðferðar.
- Sjálfsvígshætta.
- Virk geðrofseinkenni.