Reynsla af endurhæfingu

Reynsla fólks af þverfaglegri endurhæfingu
Rannsóknarsamstarf Reykjalundar og Háskólans á Akureyri.

Ábyrgðarmaður: Guðrún Pálmadóttir, dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri

Á undanförnum árum hefur áherslan í hugmyndafræði þverfaglegrar endurhæfingar færst frá faglegum yfirráðum til samstarfs við skjólstæðinga, en rannsóknir benda til þess að þátttaka skjólstæðinga í eigin endurhæfingu hafi jákvæð áhrif. Hugtakið skjólstæðingsmiðuð endurhæfing hefur verið notað til að lýsa þjónustu þar sem áhersla er lögð á skilvirka upplýsingagjöf, stuðning fagfólks og ákvarðanatöku skjólstæðinga á öllum stigum endurhæfingarinnar.

Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða reynslu skjólstæðinga af þeirri endurhæfingu sem veitt er á Reykjalundi og að hvaða marki hún samræmist viðmiðum um skjólstæðingsmiðaða þjónustu. Gögnum er safnað með matstækinu „Spurningalisti um skjólstæðingsmiðaða endurhæfingu“ sem var upphaflega þróað í Kanada. Þýðing og staðfærsla listans á íslensku var unnin í samvinnu við skjólstæðinga Sjúkrahússins á Akureyri með því að nota aðferðina ígrunduð samtöl (cognitive interviewing) í tveimur lotum. Við prófun reyndist reyndist listinn hafa góða mælifræðilega eiginleika.

Listinn er lagður fyrir alla þá sem eru að ljúka endurhæfingartímabili á Reykjalundi og geta svarað listanum án aðstoðar. Lýðfræðilegum upplýsingum er einnig safnað. Gagnasöfnun hófst í endaðan apríl og mun standa yfir þar til í desember. Rannsóknin mun gefa mikilvægar upplýsingar um reynslu skjólstæðinga af ákveðnum þáttum í endurhæfingunni, hvar styrkur hennar liggur að þeirra mati og hvaða þætti gæti þurft að efla. Samskonar rannsókn er í gangi á fleiri endurhæfingarstofnunum og sérhæfðum endurhæfingardeildum.