Mat á eigin iðju

Þróun matstækisins Mat á eigin iðju (Occupational Self Assessment (OSA))
Ábyrgðarmaður: Margrét Sigurðardóttir iðjuþjálfi.
Rannsóknin er í tveimur hlutum og tilgangur hennar tvíþættur. Annars vegar er tilgangurinn að endurbæta íslenska þýðingu matstækisins Mat á eigin iðju (Occupational Self Assessment) til að auka gæði þess og réttmæti og hins vegar að kanna próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar með það í huga að nýta matstækið sem útkomumælingu/árangursmat.

Mat á eigin iðju er sjálfsmatslisti þar sem skjólstæðingar iðjuþjálfa leggja mat á færni sína við athafnir og þátttöku og tilgreina hversu mikið gildi athafnirnar/þátttakan hefur fyrir þá.
Í fyrri hluta rannsóknarinnar verða tekin ígrunduð viðtöl við 10-15 þátttakendur þar sem þeir svara spurningum matstækisins og útskýra um leið  hvernig þeir skilja þær. Ígrunduð samtöl er ákjósanleg aðferð við þróun og staðfærslu spurningalista, en mikilvægt er að allir svarendur skilji spurningar á sama hátt og að sá skilningur sé sá sami og gert er ráð fyrir. Aðferðin er því árangursrík þegar matstæki er þýtt yfir á annað tungumál.
Í síðari hluta rannsóknarinnar verður ný og endurbætt þýðing matstækisins Mat á eigin iðju lögð fyrir a.m.k. 100 skjólstæðinga sem innritast í iðjuþjálfun á Reykjalundi á fjögurra mánaða tímabili. Matstækið verður lagt fyrir tvisvar sinnum, þ.e. í upphafi og lok endurhæfingartímabils á Reykjalundi. Auk þess verður safnað upplýsingum um bakgrunn þátttakenda. Gögnin verða notuð til þess að  kanna próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu matstækisins og hvernig það nýtist sem mæling á árangri þjónustu. Áreiðanleg og réttmæt matstæki til að greina og meta vanda og mæla árangur frá sjónarhóli skjólstæðinga eru mikilvæg til að gera þjónustu iðjuþjálfa markvissa og skilvirka.