HAM og tilfinningahæði

Tengsl milli inngripa í hugrænni atferlismeðferð og tilfinningahæðis einstaklinga: Hvaða inngrip í hugrænni atferlismeðferð eru áhrifaríkust við að draga úr lágu sjálfsmati, kvíða og þunglyndiseinkennum að mati sjúklinga í hóp og einstaklingsmeðferð.    
Ábyrgðarmaður: Jórunn Edda Óskarsdóttir sálfræðingur

Markmiðið er að kanna hvaða inngrip í hugrænni atferlismeðferð (HAM) einstaklingum finnst hjálplegust til að draga úr einkennum kvíða og þunglyndis, ásamt því að skoða hvort þekking og færni á þessum inngripum sé nægileg til að þátttakandi noti verkfærin á þann hátt sem til er ætlast. Tilfinningahæði verður mælt og skoðað hvort tengsl finnist á milli þess og erfiðleika við að vinna eða klára heimanám. Einnig verður skoðað hvort munur sé á milli hópa þegar kemur að kunnáttu á að þekkja viðhaldsþætti í kvíða og þunglyndi. Einnig verður skoðað hvort munur sé á árangri meðferðar eftir hópastærðum miðað við fyrri rannsóknir á hópmeðferð HAM á Reykjalundi.

Lagðir verða fyrir sjálfsmatslistar ATQ, ATQP, DASS, RSCQ og SUMT-28 auk spurningalisti um þekkingu og skilning á HAM sem verður lagður fyrir í síðasta tíma. Framkvæmd og fyrirlögn er eins í hóp- og einstaklingsmeðferð. Rannsakandi eða leiðbeinendur munu leggja fyrir sjálfsmatslista í hópmeðferðinni, en HAM meðferðaraðilinn í einstaklingsmeðferðinni.

Þýði er sjúklingahópur Reykjalundar og úrtak þeir einstaklingar af 8 endurhæfingarsviðum staðarins sem eru taldir, samkvæmt mati sálfræðings, geta nýtt sér verkfæri HAM í hóp- eða einstaklingsmeðferð.

Von er að niðurstöður leiði til aukins skilnings á þekkingu og færni einstaklinga á að beita aðferðum HAM sér til gagns ásamt því að kanna kanna hvort tengsl séu á milli tilfinningahæðis og erfiðleika með að framkvæma eða klára heimanám HAM.