Tóbaksfíkn

Rannsókn á árangri meðferðar við tóbaksfíkn á endurhæfingarmiðstöðinni að Reykjalundi.
 Ábyrgðarmaður: Jónína Sigurgeirsdóttir hjúkrunarstjóri Reykjalundar.

Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur reykleysismeðferðar, sem er hluti af alhliða endurhæfingu á öllum meðferðarsviðum Reykjalundar.  Árið 1992 tók starfsfólk lungnasviðs Reykjalundar frumkvæði í að beita kerfisbundinni aðferð við meðhöndlun tóbaksfíknar. 

Rannsókn á árangri reykleysismeðferðar á lungnasviði 2000-2002 sýndi að 34,8% þátttakenda voru reyklaus alla 12 mánuði eftirfylgdar og 52,2% reyklaus á 12 mánaða tímapunkti eftir útskrift (Jónína Sigurgeirsdóttir, 2002).  Frá 1.1.2010 hafa öll meðferðarsvið Reykjalundar verið reyklaus.  Veitt er reykleysismeðferð, sambærileg við þá sem Jónína Sigurgeirsdóttir (2002) lýsti, að öðru leyti en því að nú er aðeins ráðgjöf um lyf innifalin í meðferðinni, en ekki nikótínlyfjagjöf.
Meðferðin samræmist klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins (2009) um meðferð við reykingum og felst í einstaklingsráðgjöf, stuðningi, 4x60 mínútna þverfaglegri fræðslu og vikulegum stuðningshópi.  Eftirfylgd annan hvern mánuð í eitt ár eftir útskrift er hluti af meðferðinni, alls sjö tímapunktar.  Áætlað er að gagnasöfnun hefjist 1.1.2011 og taki tvö ár.   Þýðið er allir sem reykja við innritun á Reykjalund, um 400 einstaklingar á tveimur árum.  
Skráð verður hversu margir reykja við komu, fjöldi reyklausra við útskrift, reykingastaða við eftirfylgd annan hvern mánuð og fullkomið reykleysi í 12 mánuði. Til að leita vísbendinga um hjálplega þætti í reykbindindi verða athuguð tengsl milli 12 mánaða bindindis og líkamlegrar virkni, þunglyndis, áfengisneyslu, líkamsþyngdarstuðuls, teppu og reykinga á heimili.  Árangur verður borinn saman milli sjúklingahópa miðað við sjúkdómsgreiningu nr. 1 og niðurstöður reiknaðar í StatWiew með ,,non-parametric“ prófum og lýsandi tölfræði.

Samkvæmt tölum frá Landlækni reykja nú um 15% Íslendinga 18-67 ára.  Þó virðast þunglyndir og áfengissjúkir eiga sérstaklega erfitt með að losna úr viðjum fíknarinnar svo enn er mikil þörf fyrir meðferð við tóbaksfíkn.  Rannsókn Jónínu Sigurgeirsdóttur (2002) bendir til að ofangreind reykleysismeðferð sé gagnleg lungnasjúklingum; markmiðið er að kanna aftur hvernig lungnasjúklingum reiðir af í meðferðinni, en einnig hvernig meðferðin gagnast öðrum sjúklingahópum á Reykjalundi.