Jafnvægismælitæki

Mat á réttmæti og áreiðanleika íslenskrar þýðingar á jafnvægismælitækinu MiniBESTest   
Ábyrgðarmaður: Dr. Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur og rannsóknastjóri

Markmið rannsóknarinnar er að meta réttmæti og áreiðanleika íslenskrar þýðingar jafnvægisprófsins Mini Balance Evaluation System Test (MiniBESTest). Þátttakendur verða mældir með MiniBESTest prófi, Berg jafnvægisprófi, TUG prófi, 10 metra gönguprófi og svara A-Ö jafnvægiskvarðanum. Réttmæti verður metið með að bera saman niðurstöður MiniBESTest og niðurstöður Berg, TUG ,10 metra gönguprófsins og A-Ö spurningalistans. Áreiðanleiki verður metinn með samanburði á tveimur MiniBESTest prófum sem tekin verða með mest þriggja daga millibili. Að lágmarki 30 sjúklingar, sem eru innskrifaðir til endurhæfingar á Reykjalundi, verða mældir. Við innskrift meta sjúklingar á Reykjalundi jafnvægi sitt. Samkvæmt því sjálfsmati verða að minnsta kosti 20 þátttakendanna úr þeim hópi sem meta jafnvægi sitt mjög lélegt eða nokkuð lélegt en 10 þátttakendur úr þeim hópi sem meta jafnvægi sitt hvorki gott né lélegt, nokkuð gott eða mjög gott. Lélegt líkamlegt jafnvægi er algengt á meðal þeirra sem koma til endurhæfingar á Reykjalundi. Því er mikil þörf á jafnvægisprófi, sem er tiltölulega einfalt og fljótlegt að nota en uppfyllir þó ströng skilyrði um réttmæti og áreiðanleika. Þannig má meta ástand sjúklinga betur við upphaf meðferðar og kanna árangur meðferðar að henni lokinni. Gildi rannsóknarinnar felst í því að fá slíkt mælitæki á íslensku til notkunar í klínískri vinnu.