Vísindi og þróun

Tré„Það er svo bágt að standa í stað,
og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak
ellegar nokkuð á leið“.
            
Úr ljóðinu Íslandi eftir Jónas Hallgrímsson. 

Reykjalundur starfar í síbreytilegu samfélagi þar sem margir ólíkir hagsmunir og áhrifaþættir spila saman. Aðferðir í endurhæfingu breytast og ný tæki og tækni líta dagsins ljós. Á Reykjalundi er lögð áhersla á að veita endurhæfingu samkvæmt bestu þekkingu, sem byggir á hugmyndafræði endurhæfingar samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO).

Í siðareglum heilbrigðisstarfstétta er lögð áhersla á þá skyldu hvers og eins að viðhalda þekkingu sinni í faginu og endurnýja hana. Til þess skapar Reykjalundur starfsmönnun sínum aðstæður með aðgangi að fræðilegu lesefni, möguleika á endurmenntun og  þátttöku í ráðstefnum og málþingum.

Vísindarannsóknir eru  mikilvægar í allri þróun starfseminnar. Þegar nýjungar eru teknar upp í meðferð er mikilvægt að meta árangur breytinganna með vísindalegum hætti. Vísindi byggja á ákveðinni aðferðafræði og vinnulagi og um rannsóknir gilda lög og reglur. Allar vísindarannsóknir á Reykjalundi eru háðar leyfi Vísindasiðanefndar og eftir ástæðum einnig Persónuverndar.

Mikið hefur breyst í starfsemi Reykjalundar frá því að vinnuheimili fyrir berklaveika var þar stofnað árið 1945. Samfélagið hefur gjörbreyst og þekking í félags- og heilbrigðisvísindum sömuleiðis. Árið 1960 var Reykjalundi breytt úr vinnuheimili fyrir berklaveika í alhliða endurhæfingarstofnun og þeim grunni byggjum við ennþá.