Sambýlið Hlein

Hlein er sambýli fyrir mikið fatlað fólk sem hefur fatlast af völdum sjúkdóma eða slysa. Markmið starfseminnar á Hlein er fyrst og fremst að hjálpa þessu fólki að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er með mikilli fötlun. Á heimilinu búa sjö manns og hefur hvert þeirra íbúð útaf fyrir sig þar sem umhverfið er sniðið að þörfum þeirra.

Íbúar Hleinar fá þjálfunar- og læknisþjónustu frá Reykjalundi sem er iðju-, sjúkra- og þroskaþjálfun. Þeir nýta sér aðbúnað þjálfunardeilda og fá auk þess aðstoð félagsráðgjafa, sálfræðinga og talmeinafræðinga eftir þörfum. Í húskynnum Reykjalundar er rekin lítil vinnustofa fyrir íbúa Hleinar sem stýrt er af þroskaþjálfum. Þeir sem geta sækja nám í þjálfunarskóla fatlaðra.

Á Hlein starfa 22 einstaklingar: þroskaþjálfar, sjúkraliðar og aðstoðarfólk. Teymisfundir eru haldnir einu sinni í mánuði. Á þá mætir starfsfólk Hleinar, læknir, sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi frá Reykjalundi. Vinnuhæfing og félaglegur þáttur skiptir miklu máli í markmiðum heimilisins og er því öll umönnum heimilisfólks einstaklingshæfð.

Húsnæði Hleinar var byggt á árunum 1990-1992 að stórum hluta fyrir söfnunarfé sem Lionshreyfingin aflaði með sölu á rauðu fjöðrinni. Íbúar fluttu inn í húsið árið 1993. Húsnæðið er að fullu í eigu SÍBS, eiganda endurhæfingarmiðstöðvarinnar að Reykjalundi. Þetta heimili er því rekið sem ein deild út frá Reykjalundi.