Föstudagsmolar 4. apríl 2025 - Að trygga öryggi sjúklinga og starfsmanna!
Þegar farið er í þá vegferð að koma á fót vottuðu gæðakerfi er ekki hjá því komist að velta við hverjum steini í starfseminni til að sjá hvar við erum að gera vel og hvar við getum gert betur. Starfsmenn Reykjalundar hafa undanfarna mánuði lagst á eitt við að endurskoða verklag, uppfæra og bæta það sem má betur fara og ekki síst skrá og festa í sessi nýjar verklagsreglur, allt gert með það að markmiði að þeir einstaklingar sem til okkar leita fái góða og ekki síst örugga þjónustu sem skili þeim árangri sem lagt er upp með.
Eins og starfsmenn hafa væntanlega ekki farið varhluta af hafa öryggismálin svo sannarlega ekki verið undanskilin í þessari vinnu. Örygginefndin hefur að undaförnu kerfisbundið yfirfarið og kortlagt alla þætti öryggismála Reykjalundar. Ferlar, handbækur og viðbragðsáætlanir hafa verið endurskoðaðar og uppfærðar. Má þar nefna öryggis- og heilbrigðisáætlun, rýmingaráætlun og neyðaráætlun. Eins hafa hlutverk verið endurskoðuð og endurskilgreind svo sem hlutverk brunatengiliða og neyðarstjórn. Enn er nokkur vinna framundan til að ná utan um allt er viðkemur öryggismálum og eru starfsmenn hvattir til að setja upp öryggisgleraugun og koma ábendingum um það sem betur má fara til öryggisnefndar. Saman erum við öflugri þegar kemur að þessum stóra og mjög svo áríðandi málaflokki.
Vesti rýmingarfulltrúa.
Starfsmenn hafa margir tekið eftir gulum vestum merktum ,,rýmingarfulltrúi“ sem komið hefur verið fyrir víða í byggingum Reykjalundar og sumir velt fyrir sér tilgangi þessa og jafnvel haft á orði að eitthvað vanti upp á fegurðina í þessum nýju veggskreytingunum. Tilgangurinn með þeim er þó göfugur og vonandi vegur eitthvað upp á móti fegurðarskortinum. 😊
Og hver er svo þessi rýmingarfulltrúi?
Stutta svarið er við öll starfsmenn Reykjalundar erum rýmingarfulltrúar, þ.e. þegar viðvörunarbjöllurnar hljóma er sá sem næstur er og fyrstur til að klæðast vestinu fína rýmingarfulltrúi þess svæðis er skilgreint verður við hvert vesti.
Hlutverk rýmingarfulltrúa er að ganga úr skugga um að skilgreint svæði hafi að fullu verið rýmt, loka hurðum á svæðinu ef til þess gefst tími og gefa sig síðan fram við rýmingarstjóra á söfnunarsvæði þar sem hann staðfestir rýmingu svæðisins. Þannig getum við betur tryggt að enginn hafi verið skilinn eftir í húsi þegar um neyðarástand eins og eldsvoða er að ræða.
Kynning og æfing framundan.
Verið er að leggja lokahönd á skipulag og hlutverk rýmingarfulltrúa og brunatengiliða og verður haldinn kynningarfundur fyrir alla starfsmenn fljótlega eftir páska. Í kjölfarið verður rýmingaræfing þar sem viðbragðsáætlanirnar og nýr rýmingarbúnaður á Miðgarði og 2. hæð verður prófaður. Að æfingu lokinni verður farið yfir hvernig til tókst, hvað gekk vel og hvað má bæta.
Óskum öllum góðrar og öruggrar helgar.
Öryggisnefndin