13.05.2022

Föstudagsmolar forstjóra 13. maí 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar dagsins en gestahöfundur molanna er Óskar Jón Helgason, framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar.
Hann er staddur í dag á Degi sjúkraþjálfara, ásamt fleiri sjúkraþjálfurum okkar. Myndin sem fylgir molunum er tekin þar í morgun og sýnir Óskar með fyrrum kollegum af Reykjalundi. Frá vinstri: Óskar, Berghildur Ásdís Stefánsdóttir, Íris Marelsdóttir fyrrum forstöðusjúkraþjálfi og Hlín Bjarnadóttir gæðastjóri.

Um leið og ég óska ykkur góðrar helgar, vil ég senda hjúkrunarfræðingum góðar kveðjur í tilefni alþjóðadags þeirra í gær.
Svo er bara að fara inn í spennandi kosninga- og júróvisíon helgi. Áfram Ísland!

Bestu kveðjur
Pétur


ER EKKI ALLT KOMIÐ Í EÐLILEGT HORF?

Þetta er spurning sem ég fæ reglulega þessa daganna. Spurningin er eðlileg, á Reykjalundur eins og annar staðar hefur verið undarlegt ástand síðustu misseri vegna heimsfaraldurs. Ekki þarf að rifja upp hér allar þær breytingar, reglur og takmarkanir sem grípa hefur þurft til vegna þessa, en enginn vafi er í mínum huga að starfsfólk Reykjalundar hefur unnið algjört þrekvirki við að halda starfseminni gangandi á þessum krefjandi tímum.

Það er því gífurlegur léttir að þessi tími virðist vera frá og við getum aftur farið að fara óhindrað um húsið, rætt við okkar samstarfsmenn og ekki síst séð framan í það. Það er líka allt annar bragur yfir allri starfseminni, húsið iðar af lífi, matsalurinn þéttsetinn og vor í loft í orðsins víðustu merkingu.

Það má hins vegar deila um hvort allt sé orðið eðlilegt. Vissulega heyrir hólfaskiptingin sögunni til, hópmeðferðar rútínan er að mestu leiti komin í sama form og fjarvistir sjúklinga og starfsmanna vegna covid veikinda að verða fátíðar. Það „eðlilega“ ástand sem komið er í gang er hins vegar að sumu leiti nýr veruleiki. Þegar síðast var skrifað undir þjónustusamning við SÍ þurfti Reykjalundur að taka á sig kröfu um 15% meiri afköst án þess að fjármagn til stofnunarinnar væri aukið samhliða. Þó tvö ár séu liðin frá því sá samningur var undirritaður og komið sé að framlengingu hans er það í fyrsta skipti núna sem við erum komin í eðlilegt ástand og sjúklingafjöldi í húsi miðast við þessi nýju viðmið. Á sama tíma er önnur breyting sem hefur einnig áhrif á starfsumhverfið en það er stytting vinnutíma. Þó stytting vinnuviku sé mjög jákvætt skref í þá átt að auðvelda samþættingu vinnu og einkalífs, hefur hún líka í för með sér það augljósa. Við höfum styttri vinnutíma til að sinna verkefnum sem ekkert hafa fækkað.

Þessi nýi veruleiki með auknum sjúklingafjölda og styttri vinnutíma kallar á breytt vinnulag. Við þurfum að fara í naflaskoðun á því í hvað vinnutíminn okkar er að fara og forgangsraða svo verkefnum. Tryggja þarf að allir starfsmenn hafi skýran ramma utan um sína vinnu, þeir viti til hvers er ætlast af þeim og passað sé upp á að þeir nái með góðu móti að sinna því innan síns vinnutíma. Vegna þessa er nú farin í gang sú vinna að kortleggja betur störfin okkar. Starfsmenn á sviði þjálfunar og rágjafar eru þegar farnir af stað í þessa vinnu og mikilvægt er að allt húsið fylgi í kjölfarið.   
Eftir stendur spurningin „Er allt orðið eðlilegt eða eru kannski í gangi fordæmalausir tíma?“

Óskar Jón Helgason

Til baka