21.01.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 21. janúar 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gleðilegan þorra!
Í dag hefst hinn forni mánuður, þorri. Fyrsti dagur mánaðarins er bóndadagur sem ætíð er á föstudegi en síðasti dagurinn kallast þorraþræll. Gaman er að rifja upp að í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að bændur skyldu bjóða þorra velkomin með því að fara á fætur fyrstir allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að vera á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa.
Held nú að þetta sé siður sem ekki er iðkaður mikið í dag en á síðustu árum og áratugum hafa vindsældir þorrablóta og ýmissa þorrahefða aukist mikið hér á landi sem og venjur tengdar þorrablótum. Þetta á við um vinahópa, skóla, vinnustaði og ekki síst bæjarfélög eða bæjarhluta og sveitir. Margar skemmtilegar hefðir eru komnar á víða og ekki má gleyma að minnast á þorramatinn sjálfan, sem reyndar er ekki fagnað jafnmikið af öllum. Það er vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé af ljúffengum þorrabakka (kannski ekki allir sammála um „ljúffengum“) fengin að láni af alnetinu.
Annað árið í röð eru þorrablótin, því miður, í lamasessi vegna faraldursins en engu að síður sendi ég ykkur góðar bóndadags- og þorrakveðjur og vona að þið njóið vel, hvernig svo sem þorramálum er háttað hjá ykkur.

Ýmislegt tengt COVID
Eins og oft áður síðustu tvö ár, er COVID-faraldurinn að stjórna dagslegu starfi og lífi okkar þessi misserin. Í dag eru til dæmis 19 starfsmenn Reykjalundar í sóttkví eða einangrun. Þrátt fyrir að reglur um sóttkví hafi verið rýmkaðar fyrir þríbólusetta og þá sem hafa fengið Covid og tvær bólusetningar. Við höfum áður kynnt að starfsmenn eiga ekki að mæta á Reykjalund þrátt fyrir þessar rýmri reglur þar sem við erum heilbrigðisstofnun og vinnum með mjög viðkvæma einstaklinga. Framkvæmdastjórn getur þó gefið undanþágur frá þessu ef öryggismál eru í húfi.
Við höfum jafnframt fengið fyrirspurnir um bólusetningaskyldu. Að svo stöddu telur Reykjalundur sig ekki geta skyldað starfsfólk til að fara í bólusetningar en hvetur eindregið til þess. Jafnframt er ekki hægt að meina sjúklingum aðgang að þjónustu Reykjalundar séu þeir óbólusettir. Við hvetjum þó sjúklinga okkar til að fara í bólusetningu, sé það mögulegt af heilsufarástæðum. Óbólusettir ættu jafnframt að íhuga vel hvort fresta ætti meðferð á Reykjalundi þar til faraldurinn hefur gengið niður í samfélaginu. Í þessum málum munum við fylgja öðrum heilbrigðisstofnunum og gera breytingar á okkar stefnu, verði verulegar stefnubreytingar hjá öðrum heilbrigðisstofnunum.

Árshátíðin færist til 9. apríl!
Að lokum vil ég tilkynna ykkur að vegna faraldursins hefur árshátíð Reykjalundar verið færð til. Hún hafði formlega verið sett á þann 5. mars n.k. á hótel Selfossi. Af skiljanlegum ástæðum hefur verið ákveðið að seinka henni til 9. apríl á sama stað, hótel Selfossi. Endilega takið daginn frá og nú er bara að krossa fingur að sú dagsetning gangi upp!

Njótið helgarinnar!
Pétur

Til baka