Starfsendurhæfing

Markmið

Markmið starfsendurhæfingar er að bjóða upp á atvinnutengt endurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga með heilsubrest sem skerðir starfsgetu. Einstaklingar þurfa að hafa vilja og getu til að stefna í vinnu, halda vinnu eða fara í nám, að endurhæfingu lokinni.Vinnumaður

Í upphafi dvalar er lögð áhersla á að kanna áhuga, getu, menntun og starfsreynslu. Andleg, líkamleg og félagsleg færni er metin, tækifæri og takmarkanir eru kortlagðar. Því næst er endurhæfing skipulögð eftir þörfum hvers og eins.  Unnið er bæði einstaklingsbundið og í hópum.

Skjólstæðingar er aðstoðaðir af fagaðilum við að setja sér raunhæf markmið miðað við færni og getu. Alltaf er stefnt að vinnu við hæfi hvers og eins. Veittur er stuðningur við vinnuleit og atvinnuumsóknir.

Í starfsendurhæfingu er lögð áhersla á þverfaglega teymisvinnu og heildræna nálgun. Í teyminu eru

 • félagsráðgjafi
 • hjúkrunarfræðingur
 • heilsuþjálfari
 • iðjuþjálfar
 • læknir
 • sjúkraþjálfarar
 • sálfræðingur
 • verkstjóri

Auk þess er samvinna við aðrar starfsstéttir á Reykjalundi eftir þörfum.

Gildi:

 • Vinna
 • Virkni
 • Vellíðan