Skipulag meðferðar

Meðferð í mynd

Undirbúningsnámskeið

Fljótlega eftir að beiðni berst um offitumeðferð er fólk boðað á undirbúningsnámskeið. Þar er inntak meðferðarinnar kynnt og skjólstæðingar fá verkfæri í hendurnar til að byrja sjálft að vinna með nauðsynlegar lífsháttabreytingar þar til þeir eru kallaðir inn í forskoðun.

Kona í leikfimi
Forviðtal / Forskoðun

Eftir að beiðni berst má búast við að 6-8 mánuðir líði þar til að boðað er til forviðtals hjá hjúkrunarfræðingi og síðan forskoðun hjá lækni á göngudeild. Í forskoðuninni eru gerðar mælingar á holdafari, andlegri líðan og mat lagt á stöðu hvers og eins.

Göngudeildarmeðferð

Að lokinni forskoðun hefst meðferð á göngudeild þar sem gerð er meðferðaráætlun og skjólstæðingi  veittur stuðningur með komum á göngudeildina  til starfsfólks teymisins. Greiða þarf fyrir allar komur á göngudeild samkvæmt verðskrá sjúkratrygginga Íslands.

Svengdarvitundarnámskeið

Fljótlega í göngudeildarmeðferðinni býðst skjólstæðingum að fara á námskeið byggt á meðferðarnálguninni „þjálfun svengdarvitundar“. Námskeiðið er einu sinni í viku í 7 vikur, 1 ½ klst. í senn. Þjálfun svengdarvitundar (appetite awareness training) byggir á hugrænni atferlismeðferð og kennir að borða með athygli, taka eftir hugsunum og tilfinningum, hlusta á líkamann og fara eftir eðlilegum merkjum líkamans um svengd og seddutilfinningu. Mælst er til þess að skjólstæðingar lesi bókina Þekktu þitt magamál sem fæst í afgreiðslu Reykjalundar samhliða námskeiðinu.

Dagdeildarmeðferð

Skilyrði fyrir dagdeildarmeðferð er að skjólstæðingur hafi sýnt að hann sé tilbúinn til að vinna að nauðsynlegum lífsháttabreytingum og hafi náð að festa í sessi hjálplegar venjur og einnig að hreyfing sé reglubundin. Skjólstæðingar þurfa ekki að greiða fyrir dagdeildarmeðferðina á Reykjalundi.

Skipulag dagdeildarmeðferðar

Meðferðinni er skipt í þrjú tímabil. Það fyrsta er 4 vikur allan daginn frá mánudegi til föstudags en þau síðari er 1 vika í senn tvisvar sinnum. Milli dagdeildar meðferða eru 2 endurkomur, 6 mánuðir eru á milli meðferða. Um er að ræða skipulagða hópmeðferð þar sem eru 10 einstaklingar sem fylgjast að allt til loka meðferðarinnar.

Meðferðin felst í

Atferlismeðferð sem meðal annars felur í sér fræðslu og kennslu um næringu, hreyfingu og önnur efni tengd offitu.  Líkamleg þjálfun er veigamikill þáttur í meðferðinni.  Einnig er unnið með sjálfsstyrkingu, slökun og skipulag daglegs lífs. Þó um hópmeðferð sé að ræða er tekið mið af getu og þörfum hvers og eins og veitt einstaklingsbundin meðferð þegar það á við.

Eftirfylgd

Á milli dagdeildarmeðferða kemur sjúklingur í 2 endurkomur i hvort skipti. Endurkoman er einn dagur og tilgangurinn er að veita áframhaldandi stuðning. Í endurkomunum er fylgst með árangri meðferðarinnar. Í eftirfylgd eru hópumræður, stuðningur, leiðbeiningar og hreyfing. Lögð er rík árhersla á mætingu.

Magahjáveituaðgerðir

Í lok ársmeðferðar er metið hvort skjólstæðingur er tilbúinn til magahjáveituaðgerðar á Landspítala. Hann þarf að hafa breytt sínum háttum, vera kominn með reglulegt máltíðamynstur, hafa minnkað neyslu sykurs verulega, stundi reglulega hreyfingu, haldi áfram að léttast og er æskilegt að hafa lést um 10% af hámarksþyngd áður en að aðgerð kemur. Skjólstæðingur þarf einnig að vera andlega undirbúinn fyrir aðgerðina.

Biðtími getur myndast frá útskrift og að aðgerð. Eftirlit á þeim tíma fer fram rafrænt. Skjólstæðingurinn sendir reglulega til teymisins upplýsingar um stöðu sína og framvindu og fær hvatningu.