Skipulag meðferðar

Kona í leikfimi
Forviðtal / Forskoðun

Eftir að beiðni berst má búast við að 8-10 mánuðir líði þar til einstaklingur er boðaður í forviðtal og forskoðun. Spurningalistar eru þá sendir einstaklingi til útfyllingar, gerðar eru líkamsmælingar og leiðnimælingar til að meta fituprósentu og grunnefnaskiptahraða.

Kynningarvika - göngudeildarmeðferð

Eftir fyrsta mat hefst meðferð ef talin viðeigandi og er einstaklingur fljótlega boðaður í kynningarviku sem er hópmeðferð. Í kynningarviku er boðið uppá ýmis konar fræðslu, hreyfingu, svengdarvitundarnámskeið, markmið sett og næstu skref meðferðar kortlögð. Eftir það tekur við göngudeildarmeðferð sem er einstakingsmeðferð í formi viðtala (og námskeiða ef við á) á göngudeild þar sem er unnið með næringu, hreyfingu og andlega þætti. Göngudeildarmeðferð er mislöng eftir einstaklingum þangað til dagdeildarmeðferð tekur við.

Dagdeildarmeðferð

Dagdeildarmeðferðin tekur eitt ár og byggist upp á þremur innlögnum, fyrst í 3 vikur og síðan tvær vikuendurkomur, eftir 6 og 12 mánuði frá upphafi dagdeildarmeðferðar (þar á milli eru fjórar dagsendurkomur með umræðum, fræðslu og hreyfingu, sjá hér að neðan: Eftirfylgd). Einstaklingum utan höfuðborgarsvæðisins býðst gisting á vægu verði á meðan á innlögnum stendur.

Skilyrði fyrir dagdeildarmeðferð er að skjólstæðingur hafi sýnt að hann sé tilbúinn til að vinna að nauðsynlegum lífsháttabreytingum og hafi náð að festa í sessi hjálplegar venjur og einnig að hreyfing sé reglubundin. Dagdeildarmeðferð er skjólstæðingum að kostnaðarlausu en greiða þarf fyrir göngudeildarmeðferð.

Meðferðin felst í

Atferlismeðferð sem meðal annars felur í sér fræðslu og kennslu um næringu, hreyfingu og önnur efni tengd offitu. Líkamleg þjálfun er veigamikill þáttur í meðferðinni.  Einnig er unnið með sjálfsstyrkingu, slökun og skipulag daglegs lífs. Þó um hópmeðferð sé að ræða er tekið mið af getu og þörfum hvers og eins og veitt einstaklingsbundin meðferð þegar það á við.

Eftirfylgd

Á milli dagdeildarmeðferða kemur einstaklingur í tvær endurkomur i hvort skipti. Endurkoman er einn dagur og tilgangurinn er að veita áframhaldandi stuðning. Í endurkomunum er fylgst með árangri meðferðarinnar. Í eftirfylgd eru hópumræður, einstaklingsviðtöl, stuðningur, leiðbeiningar og hreyfing. Lögð er rík áhersla á mætingu.

Magahjáveitu-/magaermisaðgerðir

Samstarf er milli Reykjalundar og Landspítala háskólasjúkrahúss varðandi undirbúning fyrir magahjáveitu-/magaermisaðgerðir. Það er metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort einstaklingur uppfylli skilyrði fyrir að gangast undir slíka aðgerð og á hvaða stigi meðferðar beiðni er send Landspítala. Einstaklingi er fylgt eftir á Reykjalundi þar til að aðgerð kemur.