Fræðsla

Sérstök dagskrá með 12 fræðsluerindum er á stundaskrá allra sem innritast á hjartasvið.

Fræðsluhringurinn

Auk þessara fræðsluerinda, þá stendur sjúklingum til boða að sækja ýmsa aðra fræðslu, skóla og námskeið í húsinu eftir þörfum. Má þar nefna geðheilsuskólann, lungnaskólann, verkjaskólann og fleira.

Fjölskyldufundur

Öllum skjólstæðingum okkar er boðið upp á fjölskyldufund meðan á endurhæfingu stendur. Einnig geta aðstandendur haft samband símleiðis við hjúkrunarfræðing á deildinni.

Með góðu fæðuvali má draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum. Hjartavænt fæði er almennt hollt mataræði sem er sett saman úr þeim lífsnauðsynlegu næringar- og orkuefnum sem líkaminn þarfnast. Fjallað er um þau efni sem við fáum úr fæðunni, orkuefni-prótein, fitu og kolvetni, vítamín, steinefni, snefilefni og vatn.
Í næringarfræðslu á hjartasviði er boðið upp á fjóra mismunandi fyrirlestra:

  • Æskilegt mataræði / hjartavænt fæði
  • Innihaldslýsingar / umbúðamerkingar matvæla
  • Samsetning fæðunnar
  • Matreiðsluaðferðir

Fólk er hvatt til að yfirfara mataræði sitt og endurskoða og breyta þar sem þess gerist þörf. Öllum er síðan boðið að taka þátt í matreiðslu í kennslueldhúsi Reykjalundar þar sem kennt er í 5-8 manna hópum. Matreiðsla hefur áhrif á hollustu matarins sem við neytum. Forsenda hollrar matreiðslu er ferskt hráefni, matreitt á réttan máta.

Fræðsla um svefn og mikilvægi þess að sofa og hvílast vel. Fjallað er um svefngæði og bjargráð til að bæta svefn og svefnvenjur. Einkenni kæfisvefns eru kynnt og ef grunur er um kæfisvefn þá er gerð svefnrannsókn.

Niðurstöður rannsókna sýna að hreyfing og þjálfun hafa heilsubætandi áhrif á líkama og sál.
Hreyfingarleysi er einn af áhættuþáttum kransæðasjúkdóma og ýtir undir versnun einkenna hjá þeim sem þegar hafa greinst með kransæðasjúkdóm. Því er ljóst að mikilvægt er að hreyfa sig reglulega til þess að sporna við þeirri þróun.

  • Það fer eftir tegund hreyfingar, ákefð og tímalengd hvaða ávinningur næst og er talað um annars vegar heilsubætandi áhrif þjálfunar og hins vegar þolþjálfunar áhrif. Einnig er rétt útfærð styrkþjálfun mikilvæg ekki síst til þess að viðhalda og bæta færni.