Áhættuþættir

FræðslaNokkrir áhættuþættir hjartasjúkdóma eru þekktir. Má þar meðal annars nefna reykingar, ofþyngd, streitu, sykursýki og hreyfingarleysi. Í hjartaendurhæfingunni er markvisst unnið að því að aðstoða sjúklinga við að þekkja og takast á við sína áhættuþætti. Frætt er m.a. um næringu, sykursýki, slökun, jafnvægi í daglegu lífi og reyklaust líf.
Neysluhæfing er í boði fyrir þá sem eru of þungir og vilja breyta matarræðinu og léttast. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sjá um Neysluhæfinguna og aðstoða fólk við að finna út hvernig skipta má máltíðum yfir daginn, kenna að skrá í matardagbók, leita í hitaeiningatöflum og fræða um hvernig best er að léttast á heilbrigðan máta.
Stór áhættuþáttur hjarta og æðasjúkdóma er sykursýki og margir sem koma í hjartaendurhæfingu eru með sykursýki. Þeim er boðið upp á fræðslu með aðaláherslu á mikilvægi mataræðis og hreyfingar.
Flestum sem koma til endurhæfingar á hjartasviði er boðið að taka þátt í námskeiði um jafnvægi í daglegu lífi, sem fer fram í hópi undir stjórn iðjuþjálfa.
Þátttakendur fá tækifæri til að skoða sitt eigið líf, jafnvægi milli skyldustarfa og tómstunda og hvernig undangengin veikindi hafa haft áhrif á færni þeirra til að sinna hlutverkum sínum. Lögð er áhersla á að þátttakendur læri um helstu streitueinkenni, streituvalda og bjargráð við streitu og ójafnvægi. Þátttakendur velta fyrir sér hvaða markmið þeir hafa varðandi eigið jafnvægi eftir útskrift.
Boðið er upp á fræðslu og þjálfun í slökun. Markmið slökunarinnar er að þátttakendur verði meðvitaðir um ástand hugar og líkama og nái að tileinka sér tækni sem er mikilvæg til að læra að hvílast, vinna á móti svefnleysi, kvíða og ýmiss konar streitu.
Reykleysi er skilyrði fyrir hjartaendurhæfingu. Reykjalundur er reyklaus endurhæfingarstofnun. Við innköllun eru veittar upplýsingar og ráð til undirbúnings reykleysis fyrir þá sem þess þurfa. Fyrir þá sem hætta reykingum við komu og/eða óska eftir stuðningi og fræðslu er boðið upp á reykleysismeðferð sem kallast Líf án tóbaks.