Hjartateymi

Hjartateymi Reykjalundar er þverfaglegt og í því starfa félagsráðgjafi, heilsuþjálfari, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, læknar, næringarfræðingur, sálfræðingur, sjúkraþjálfarar og sjúkraliðar.

Skipulögð hjartaendurhæfing hefur verið starfrækt á Reykjalundi frá árinu 1982 og hófst þá með formlegum hætti endurhæfing fólks með hjartasjúkdóma hér á landi.

Hjartaendurhæfing er skilgreind þannig að í henni felist allt það sem bætir líkamlegt, sálrænt og félagslegt ástand einstaklings með hjartasjúkdóm, með það að markmiði að hann nái að lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt er í umhverfi sínu. Meginþættir endurhæfingarinnar eru þjálfun, aðstoð við sálræna og félagslega aðlögun, meðferð áhættuþátta og fræðsla. Endurhæfing er alltaf hluti heildrænnar meðferðar. Starfað er eftir gildum og grundvallarstefnu hjartateymis.

Grundvallarstefna hjartateymis er að veita faglega hjartaendurhæfingu sem byggir á niðurstöðum nýjustu viðurkenndra vísindarannsókna. Að hjartaendurhæfingunni kemur teymi fólks sem með þverfaglegri nálgun vinnur með skjólstæðingnum að því að ná sem bestum lífsgæðum með endurhæfingu í besta mögulega starfsumhverfi.
 

Símatími hjartateymis er á miðvikudögum
frá kl.14:30 til 15:30
Þórunn Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Dagný Finnsdóttir, sjúkraliði
sími: 585-2000
Beiðni um hjartaendurhæfingu þarf að berast frá lækni t.d. hjartalækni, hjartaskurðlækni eða heimilislækni. Beiðnin er síðan metin af yfirlækni hjartasviðs. Með beiðninni er æskilegt að fylgi útfyllt eyðublað þar sem umsækjandi skráir sínar helstu óskir og markmið með væntanlegri endurhæfingu.  
Í flestum tilvikum getur endurhæfingin hafist fjórum til átta vikum eftir meðferð/inngrip, en annars er alltaf hvert tilvik fyrir sig skoðað og metið sérstaklega.
Lengd dvalar er að jafnaði fjórar vikur. Flestir eru á dagdeild frá kl. 8 til 16 virka daga. Í sumum tilvikum er möguleiki á gistingu, sérstaklega ef fólk er utan af landi. Einnig er möguleiki á dvöl á hjúkrunardeild fyrir veikari einstaklinga. Hér koma nokkrar hagnýtar upplýsingar fyrir dvöl á hjartateymi.
Aðalbækistöð þeirra sem innskrifast á hjartateymi er á fyrstu hæð Reykjalundar, deild A-1 - hjartadeild, þar sem meðal annars er setustofa og vakt hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hjartateymis virka daga milli kl. 8 og 16.

Gildi

  • Samvinna
  • Þekking
  • Virðing
  • Lífsgæði