Meðferð

Eftir mat á beiðnum sem berast er skjólstæðingum ýmist boðið að koma í forviðtal, á kynningar- og matsdaga eða beint til meðferðar.

Endurhæfingin byrjar oftast á kynningar- og matsdögum.  Skjólstæðingurinn kemur þá í 4 daga þar sem fagfólk leggur mat á heilsu hans, getu og viðhorf. Hann fær fræðslu og stuðning við að setja sér markmið og finna leiðir til heilsueflingar í sínu nærumhverfi. Að kynningardögum loknum fær skjólstæðingurinn eftirfylgd og stuðning í formi göngudeildar- og/eða símaviðtala. Lagt er mat á hvort og þá hvenær skjólstæðingurinn hafi þörf á áframhaldandi meðferð á gigtarsviði. Mikilvægt er að skjólstæðingurinn sé virkur í sinni endurhæfingu og taki ábyrgð á eigin heilsu.

Leitast er við að veita þverfaglega, einstaklingsmiðaða og heildræna meðferð. Tekið er á líkamlegum, andlegum og félagslegum vandamálum eftir því sem við á.

Endurhæfingin byggir á einstaklings- og hópmeðferð. Áhersla er lögð á líkamlega, andlega og félagslega virkni.

Meðferðartíminn er einstaklingsbundinn en að jafnaði 4-6 vikur. 

Námskeið:

  • Verkjaskóli
  • Slökun- og streitustjórnun
  • Geðheilsuskóli
  • Hugræn atferlismeðferð

Fræðsla:

  • Um hreyfingu
  • Um liðvernd
  • Um neysluvenjur
  • Um reyklaust líf
  • Um vefjagigt