HAM-LS
Hugræn atferlismeðferð við lágu sjálfsmati
Í endurhæfingu er fólk að takast á við margvíslegar breytingar sem geta haft áhrif á sjálfsmatið svo sem vegna langvinnra veikinda eða slysa. Einnig getur lágt sjálfsmat haft áhrif á árangur endurhæfingar þar sem það að hafa trú á sjálfum sér og eigin getu er lykilatriði í að leggja sig fram og ná árangri.
Meðferðin stendur til boða fyrir skjólstæðinga á öllum sviðum Reykjalundar.
- Námskeið er tvisvar í viku í fjórar vikur (8 skipti), mánud. og miðvikud. kl. 14:00-16:00
- Hefst: 25. sept. og 30. okt.
Sálfræðingur teymisins veitir nánari upplýsingar og sér um skráningu.
Sálfræðingar Reykjalundar bjóða upp á hópmeðferð við lágu sjálfsmati, byggða á kenningum og aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Meðferðin ber yfirskriftina „Betra sjálfsmat: Hugræn atferlismeðferð við lágu sjálfsmati“ og er, með leyfi höfunda, byggð á efninu: Self-Esteem frá Centre for Clinical Interventions (CCI), Western Australia. https://www.cci.health.wa.gov.au/Resources/Looking-After-Yourself/Self-Esteem Þóra Hjartardóttir sá um íslenska þýðingu en endurskoðun og uppsetning var í höndum sálfræðinganna Ingu Hrefnu Jónsdóttur, Gunnhildar L. Marteinsdóttur, Hugrúnar Sigurjónsdóttur og Hjálmtýs Alfreðssonar.
Meðferðarhandbókin kostar kr. 3.600,-.
Þeir einstaklingar sem útskrifast áður en meðferð er lokið eiga þess kost að ljúka meðferð á göngudeild án endurgjalds.
Námskeiðið er einnig hægt að taka allt á göngudeild og kostar 33.663 kr. sem greiðist við upphaf námskeiðs. Afsláttur til öryrkja er 45%. Námsgögn eru innifalin í námskeiðsgjaldi.
Sams konar námskeið byggt á efni frá Landspítalanum var í boði á Reykjalundi frá 2014-2019. Niðurstöður árangursmælinga LSH á námskeiðinu gáfu til kynna að meðferðin hafi jákvæð áhrif á líðan þeirra þátttakenda sem ljúka henni. Sjálfsálit jókst, þunglyndi, kvíði og streita minnkaði og lífsgæði bötnuðu. Sjá nánar í cand.psych. verkefni Lilju Sifjar Þorsteinsdóttur sálfræðings: Árangur níu vikna hugrænnar atferlismeðferðar í hópi við litlu sjálfsáliti https://skemman.is/handle/1946/7571
Niðurstöður frá 104 fyrstu þátttakendunum á Reykjalundi bentu einnig til góðs árangurs. Sjá nánar í meistaraprófsritgerð Gunnhildar Ólafsdóttur sálfræðings:
Cognitive behavioural group therapy for low self-esteem: An outcome study https://skemman.is/handle/1946/28704
Rannsóknir á lágu sjálfsmati hafa m.a. gefið til kynna að:
- Sjálfsálit reynist hafa sterkt forspárgildi fyrir hamingju og lífsgæði.
- Fólk með mikið sjálfsálit er með lægra magn af streituhormóninu kortisóli í blóðinu í kjölfar streituvaldandi atburða.
- Fólk með lítið sjálfsálit upplifir sterkari sjúkdómseinkenni, meiri sársauka og meira andlegt álag.
- Fólk með lítið sjálfsálit er líklegra til að verða veikt eftir að hafa verið undir miklu álagi.
- Sterk tengsl eru á milli átraskana og lítils sjálfsálits og er lágt sjálfsálit oft nefnt sem viðhaldandi þáttur.
- Fólki með sveiflukennt sjálfsálit er hættara við að þróa með sér þunglyndi.