Teymi

Endurhæfing og þverfagleg teymisvinna

Þegar unnið er heildrænt að endurhæfingu sjúklinga þarf að horfa til þess að vandamálin geta verið margþætt og flókin. Með því að vinna í þverfaglegum teymum er reynt að ná árangri umfram getu einstaklinganna sem í teyminu starfa.

Uppbygging teyma
Teymi er skilgreint sem hópur fólks sem sameinar hæfileika sína og sérþekkingu við lausn tiltekins viðfangsefnis, stefnir að sama marki samkvæmt ákveðnum vinnureglum og ber sameiginlega ábyrgð. Vinnulag innan teyma er mismunandi og segja má að hvert teymi starfi sjálfstætt og sérhæfi sig sérstaklega hvert á sínu sviði.
Innan hvers teymis er meðal annars lögð áhersla á:
  • Sameiginlega ákvarðanatöku og markmiðssetningu
  • Þarfir sjúklinga
  • Að teymið velji sér teymisstjóra
  • Verkaskiptingu milli fagstétta
  • Þekkingu á vinnu annarra faghópa innan teymisins
  • Góð samskipti - formleg sem óformleg
  • Jafnan rétt allra
  • Að einstaklingar í teyminu hafi getu og vilja til að vinna í teymi
  • Gagnkvæmt traust
Mikilvægi teymisvinnu
Almennt má segja að innan heilbrigðiskerfisins sé aukin áhersla lögð á teymisvinnu.
Til þess að þróa og viðhalda góðri þverfaglegri endurhæfingu þurfa teymin að:
  • Endurskoða stöðugt það sem þau gera
  • Tengjast öðrum sem vinna við sambærileg verkefni
  • Lesa og læra. Lesa fagtímarit og bækur, sækja ráðstefnur og námskeið
  • Hafa möguleika á sérhæfingu og framhaldsnámi
  • Þróa og nota mælitæki
  • Stunda rannsóknir

Þverfagleg teymisvinna er mikilvæg, því hún eykur starfsánægju starfsfólks, gæði þjónustunnar og ánægju sjúklinga með niðurstöður meðferðar. Fyrir stofnunina stuðlar teymisvinnan að tryggð starfsfólks, minni starfsmannaveltu og dregur úr kostnaði.

VerkjateymiÞetta dæmi sýnir uppbyggingu verkjateymis á Reykjalundi. Örvarnar tákna samskipti. Góð samskipti og samvinna er mikilvæg bæði á milli fagfólks, en ekki síður á milli fagfólks og skjólstæðinga til þess að tryggja sem bestan árangur í endurhæfingunni.