Offituteymi

Á offitusviði Reykjalundar fer fram þverfagleg meðferð of feitra einstaklinga. Meðferðin byggir á atferlismótun og er hópmeðferð um 10 skjólstæðinga í senn.

Eftir að beiðni berst geta liðið um 6-8 mánuðir þar til einstaklingur er boðaður í forviðtal  og forskoðun. Æskilegt er að  nýlegar blóðprufur liggi fyrir með mælingum á blóðsykri, blóðfitum, ferritíni, B12 og skjaldkirtilsstarfsemi til að styðja nánara mat. Gerðar eru líkamsmælingar og viðnámsmælingar til að meta fituprósentu og grunnefnaskiptahraða, ásamt mælingum á andlegri líðan.

Eftir fyrsta mat hefst meðferð sem miðar að því að búa einstaklinginn sem best undir hópmeðferðina og er miðað við að göngudeildarmeðferð standi í 4-6 mánuði. Á þeim tíma er unnið með næringu, hreyfingu og andlega þætti, boðið upp á svengdarvitundarnámskeið ef einstaklingur hefur tök á. Þegar einstaklingurinn sýnir að hann hefur breytt sínum háttum og er byrjaður að léttast hefst dagdeildarmeðferð.

Hópmeðferðin tekur eitt ár og byggist upp á þremur innlögnum, fyrst í 4 vikur og síðan tvær vikuendurkomur, eftir 6 og 12 mánuði frá upphafi hópmeðferðar. Þar á milli eru fjórar dagsendurkomur með umræðum, fræðslu og hreyfingu. Einstaklingum utan höfuðborgarsvæðisins býðst gisting sér að kostnaðarlausu á meðan á innlögnum stendur.

Til að meðferðin verði markviss eru sett eftirfarandi skilyrði:
  • Beiðni þarf að vera greinargóð. Upplýsingar um hæð og þyngd, góðar upplýsingar um annað  heilsufar, bæði andlega og líkamlega sjúkdóma. Æskilegt er að niðurstöður blóðrannsókna fylgi.
  • Reykleysi, ekki virk áfengis- eða vímuefnaneysla
  • Aldursmörk eru 18 – 65 ára
  • BMI 35-40 með fylgikvillum, BMI >40 án fylgikvilla
  • Einstaklingar þurfa að hafa getu til að tileinka sér atferlismótandi meðferð með fræðslu og upplýsingagjöf.

Í lok ársmeðferðar er lagt mat á hvort skjólstæðingurinn uppfylli skilyrði fyrir að gangast undir magahjáveituaðgerð. Ef svo er og ef áhugi er fyrir hendi er hann skráður á biðlista fyrir aðgerð og fylgt eftir þar til að aðgerð kemur.