Offituteymi

Á efnaskipta- og offitusviði Reykjalundar fer fram þverfagleg meðferð einstaklinga með offitu. Meðferðin byggir á atferlismótun og er hópmeðferð um 10 skjólstæðinga í senn.

Eftir að beiðni berst geta liðið um 8-10 mánuðir þar til einstaklingur er boðaður í forviðtal og forskoðun. Æskilegt er að  nýlegar blóðprufur liggi fyrir með mælingum á blóðsykri, blóðfitum, ferritíni, B12 og skjaldkirtilsstarfsemi til að styðja nánara mat. Spurningalistar eru sendir einstaklingi til útfyllingar, gerðar eru líkamsmælingar og leiðnimælingar til að meta fituprósentu og grunnefnaskiptahraða.

Eftir fyrsta mat hefst meðferð ef talin viðeigandi og er einstaklingur fljótlega boðaður í kynningarviku sem er hópmeðferð. Í kynningarviku er boðið uppá ýmis konar fræðslu, hreyfingu, svengdarvitundarnámskeið, markmið sett og næstu skref meðferðar kortlögð. Eftir það tekur við göngudeildarmeðferð sem er einstakingsmeðferð í formi viðtala (og námskeiða ef við á) á göngudeild þar sem er unnið með næringu, hreyfingu og andlega þætti. Göngudeildarmeðferð er mislöng eftir einstaklingum. Flestir halda áfram og fara í dagdeildarmeðferð.

Dagdeildarmeðferðin tekur eitt ár og byggist upp á þremur innlögnum, fyrst í 3 vikur og síðan tvær vikuendurkomur, eftir 6 og 12 mánuði frá upphafi hópmeðferðar. Þar á milli eru fjórar dagsendurkomur með umræðum, fræðslu og hreyfingu. Einstaklingum utan höfuðborgarsvæðisins býðst gisting á vægu verði á meðan á innlögnum stendur. Meðferð í innlögnum er skjólstæðingum að kostnaðarlausu en greiða þarf fyrir göngudeildarmeðferð.

Samstarf er milli Reykjalundar og Landspítala háskólasjúkrahúss varðandi undirbúning fyrir magahjáveitu-/magaermisaðgerðir. Það er metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort einstaklingur uppfylli skilyrði fyrir að gangast undir slíka aðgerð og á hvaða stigi meðferðar beiðni er send Landspítala. Einstaklingi er fylgt eftir á Reykjalundi þar til að aðgerð kemur.

Til að meðferðin verði markviss eru sett eftirfarandi skilyrði:

  • Beiðni þarf að vera greinargóð. Upplýsingar um hæð og þyngd, góðar upplýsingar um annað  heilsufar, bæði andlega og líkamlega sjúkdóma. Æskilegt er að niðurstöður blóðrannsókna fylgi.
  • Reykleysi, ekki virk áfengis- eða vímuefnaneysla
  • Aldursmörk eru 18 – 65 ára
  • BMI 35-40 með fylgikvillum, BMI >40 án fylgikvilla
  • Einstaklingar þurfa að hafa getu til að tileinka sér atferlismótandi meðferð með fræðslu og upplýsingagjöf.