Hjartateymi
Á hjartasviði Reykjalundar fer fram þverfagleg hjartaendurhæfing sem
byggir á grunni klíniskra leiðbeininga. Áhersla er lögð á
einstaklingsmiðaða meðferð sem fer þó mikið fram í hópum, en það
samræmist einmitt ofangreindum leiðbeiningum. Endurhæfingin felst í
þjálfun, andlegri og líkamlegri aðlögun, fræðslu og meðferð áhættuþátta.
Lögð er áhersla á að gera fólk vel í stakk búið til þess að halda áfram
á þeirri braut sem grunnur er lagður að á meðan á dvöl á hjartasviði
stendur. Klíniskar leiðbeiningar um hjartaendurhæfingu hafa verið gefnar
út í ýmsum löndum. Í þeim er mælt með að ákveðnir hópar hjartasjúklinga
fái hjartaendurhæfingu á þeim forsendum að endurhæfing dragi úr
dánartíðni, fækki hjartaáföllum, fækki sjúkrahúslegum, bæti lífsgæði og
sé þjóðhagslega hagkvæm. Þetta á við þá sem fengið hafa kransæðastíflu,
farið hafa í kransæðavíkkun eða skurðaðgerð og sjúklinga með
hjartabilun. Niðurstöður margra rannsókna hafa auk þess sýnt fram á
ótvíræðan ávinning hjartaendurhæfingar fyrir þá sem eru með langvinnan
kransæðasjúkdóm og þá sem farið hafa í hjartalokuaðgerðir. Beiðni um
endurhæfingu á hjartasviði Reykjalundar þarf að berast frá lækni.
Stigskipting hjartaendurhæfingar
Hjartaendurhæfing skiptist í þrjú stig ( Stig I, II og III). Markmiðið er það sama á öllum stigum en aðferðir til að ná markmiðum ráðast af ástandi sjúklings. Á öllum stigum er fylgst með svörun við hreyfingu og stigvaxandi álagi, veitt fræðsla og stuðningur við að taka á áhættuþáttum og komast út í lífið á ný eftir áfall eða aðgerð.
Hjartaendurhæfingin á Reykjalundi er fyrst og fremst Stig II endurhæfing.