Hjarta- og lungnarannsókn

HjólÁlagspróf, öndunarmælingar og svefnrannsóknir eru megin viðfangsefni hjarta- og lungnarannsóknarstofunnar.

Álagspróf eru gerð til að mæla þrek og líkamlegt ástand hjarta- og lungnasjúklinga fyrir og eftir endurhæfingu, en auk þess er þeim oft beitt til sjúkdómsgreiningar. Próf þessi eru mismunandi að gerð og fer val á prófi algjörlega eftir því hver ástæðan fyrir prófinu er:

  • sjúkdómsgreining
  • mat á horfum fyrir íhlutun svo sem skurðaðgerð
  • mat á árangri íhlutunar svo sem þjálfunar

Með öndunarmælingum er hægt að greina teppusjúkdóm í lungum og meta stig sjúkdómsins. Þá fást einnig upplýsingar um gang sjúkdómsins með samanburði við eldri mælingar. Ýmsa sjúkdóma sem valda herpu þ.e. skertu lungnarúmmáli  má einnig greina og meta með öndunarmælingum.

Með svefnrannsóknum er hægt að greina kæfisvefn og aðrar truflanir á öndun í svefni.

Rannsóknarstofan býður svo upp á sólarhringsblóðþrýstingsmælingu. Markmið þeirrar rannsóknar er að fylgjast með blóðþrýstingi með reglulegum mælingum í sólarhring.

Ofangreindar rannsóknir eru eingöngu gerðar samkvæmt beiðni frá lækni.

Á rannsóknarstofunni eru tekin12 leiðslu hjartarafrit í hvíld.
Rannsóknarstofan hefur yfir að ráða sólarhringsblóðþrýstingsmæli. Sjúklingurinn er með  mælinn í sólarhring og tækið mælir á 30 mínútna fresti yfir daginn og síðan á klukkustundar fresti yfir nóttina. Þetta er þó stillingaratriði og hægt að breyta.
Ábendingar:  
  • til greiningar á háþrýstingi
  • eftirlit háþrýstingsmeðferðar

Svefnskimanir eru framkvæmdar til að greina kæfisvefn eða aðrar öndunartruflanir í svefni. Rannsóknarstofan hefur yfir að ráða tveimur svefnskimunartækjum.

Einfaldasta svefnskimunin er mæling á öndunarhreyfingum, loftflæði um öndunarvegi og súrefnismettun. Möguleiki er að bæta við mælingu á hjartarafriti eða mælingu á fótakippum (PLM).

Ábendingar:

  • grunur um kæfisvefn
  • dagsyfja
  • offita
  • miklar hrotur
  • morgunþreyta
  • fótaóeirð
  • grunur um næturhypoxiu

Sex mínútna göngupróf: Er starfrænt submaximal próf. Það er auðvelt og einfalt í framkvæmd og endurspeglar jafnvel betur úthald til daglegra athafna og er gjarnan næmara á breytingar á þoli/úthaldi heldur en hámarksþolpróf. Viðkomandi á að ganga eins langt og hann getur á 6 mínútum. Mæld er sú vegalengd sem gengin er og meðal gönguhraði. Sjúklingurinn stýrir sjálfur hraðanum en hefur fengið þau fyrirmæli að fara sem flestar ferðir á þessum tíma.Súrefnismettun og púls eru skráð fyrir próf og síðan stöðugt á meðan á prófinu stendur. Eins metur sjúklingur mæði  á Borg mæðiskala fyrir og eftir próf. Blóðþrýstingur er mældur ef ástæða er til.

Sterkasta ábending fyrir sex mínútna gönguprófi er að meta lyfjaíhlutun hjá sjúklingum með alvarlega hjarta- og lungnasjúkdóma. Þetta próf er líka mikið notað sem árangursmat í endurhæfingu einkum hjá  sjúklingum með hjartabilun eða langvinna lungnateppu.

Á Reykjalundi er prófið mest notað sem árangursmat  hjá lungna- og hjartasjúklingum fyrir og eftir endurhæfingu og eins í eftirfylgd. Eins er það notað þegar metin er þörf fyrir hjarta- eða lungnaskipti. Ávallt eru framkvæmd tvö próf við komu og eitt við útskrift og er prófað á 70 metra löngum gangi. Ef súrefnismettun fellur niður fyrir 90% á mettunarmæli er sjúklingur hafður á súrefni í næsta gönguprófi.

Hámarksþolpróf eru mikilvæg til að meta afkastagetu (functional capacity). Þær upplýsingar nýtast vel þegar ráðleggja skal um virkni, gera þjálfunaráætlun, meta starfshæfni og hjálpa til við að meta horfur (prognosu). Fyllsta öryggis er gætt en auk starfsfólks rannsóknarstofu er læknir ávallt viðstaddur hámarksþolprófin auk þess sem rannsóknarstofan er búin björgunarbúnaði.

Einfalt hámarksþolpróf: þá er sjúklingur prófaður á hjóli eða göngubretti og afkastageta mæld um leið og fylgst er með svörun hjarta- og æðakerfis á stigvaxandi álagi. Sjúklingur er tengdur við 12 leiðslu hjartalínurit og blóðþrýstingur mældur á mínútufresti. Fylgst er með einkennum sjúklings og  einnig er fylgst með súrefnismettun í blóði sé þess þörf. Við framkvæmd prófsins er Ramp protokoll notaður, það er viðnámið á hjólinu eykst stöðugt með það að markmiði að hámarksálagi verði náð á 8-12 mínútum. Val protokols er háð því hvaða spurningu prófið á að svara.

Ábendingar:

  • Ef grunur vaknar um kransæðaþrengsli eða einhvers konar hjartsláttartruflanir er þetta próf gjarnan notað til greiningar.
  • Til að ganga úr skugga um að óhætt er fyrir viðkomandi að hefja þjálfun.
  • Þetta próf er notað sem árangursmæling í endurhæfingu þá sérstaklega hjá hjarta- og lungnasjúklingum.
  • Ef einstaklingur er kominn með marga áhættuþætti þó svo að hann hafi ekki einkenni hjartasjúkdóms.
  • Prófið er notað til að gera líkamsþjálfun enn nákvæmari og árangursríkari.
Hámarksþolpróf með mælingu á súrefnisupptöku, koldíoxíðútskilnaði,öndun, andrýmd og öndunartíðni  í hvíld og við áreynslu er nákvæmasta mæling á þoli og gefur góðar vísbendingar um heilbrigði hjarta og lungna. Þessi mæling er þó ekki alltaf nauðsynleg þegar mæla á úthald og þol í klínísku starfi, en þessar viðbótar lífeðlisfræðilegu upplýsingar sem prófið gefur geta skipt verulegu máli. Þar sem hjarta- og lungnasjúkdómar koma oft fram sem truflun á loftskiptum við áreynslu getur þetta próf hjálpað til við mismunagreiningu hjarta- eða lungnavandamáls.
Þessi mæling bætist ofan á mælingarnar í einfalda þolprófinu.Í völdum tilfellum eru blóðgös tekin og efnagreind í hvíld og við hámarksáreynslu.
Ábendingar:    
  • Gerð þjálfunaráætlunar fyrir sjúklinga með hjartabilun eða langvinna lungnasjúkdóma.
  • Greina ástæður þolskerðingar eða mæði þegar etiologian er óljós.
  • Mat á horfum sjúklinga með hjartabilun eða lungnasjúkdóma fyrir íhlutun svo sem skurðaðgerð.
  • Mat á sjúklingum fyrir hjarta- eða lungnaígræðslu.
  • Nákvæmt mat á íhlutun í vísindarannsóknum.
Blásturspróf (spirometria): mæling á heildarfrámáli (forced vital capacity, FVC) og hámarks fráblástur á einni sekúndu (forced expiratory volum in 1 sec, FEV1).  Með þessari einföldu mælingu er hægt að meta hvort til staðar sé teppa (obstruction) eða herpa (restriction) í lungum.
Helstu ábendingar:
  • Grunur um skerta lungnastarfsemi eða lungnasjúkdóm.
  • Óútskýrð mæði.
  • Til að fylgjast með framgangi lungnasjúkdóms.
  • Reykingarfólk yfir 40 ára aldri
        
Mæling á heildarrýmd lungna (total lung capacity, TLC). Er mælt í Body boxi.
Helstu ábendingar:
  • Blásturspróf með herpumynstri (skert FVC og FEV1/FVC ≥0,7).
  • Grunur um interstitial sjúkdóm í lungum.
  • Mat á lungnaþembu (emphysema).

Mæling á loftskiptum lungna með „eins andardráttar CO loftskipta” aðferðinni (single breath CO diffusion).
Helstu ábendingar:
  • Mat á lungnaþembu.
  • Grunur um interstitial lungnasjúkdóm.
  • Grunur um lungnaembólíu.
  • Súrefnismettun í hvíld eða við áreynslu <90%.
  • Hlutþrýstingur súrefnis í slagæðablóði <85 mmHg.
  • Fyrirhuguð meðferð með lyfjum sem geta valdið fíbrósusjúkdómi í lungum (svo sem Cordarone).