Hjúkrunarskráning

Rauð berICNP

Hjúkrunarferlið hefur verið skráð á Reykjalundi um árabil samkvæmt því flokkunarkerfi og fagorðaskrá sem mælt er með hjá Embætti landlæknis. Skráningin var þróuð út frá ameríska flokkunarkerfinu „North American Nursing Diagnosis Association“ (NANDA, 2001).  Nú er í undirbúningi hjá Embætti landlæknis útgáfa alþjóðlega flokkunarkerfisins ICNP (International classification of nursing practice), en skrárnar eru þó ekki aðgengilegar á vefnum sem stendur (Embætti landlæknis, 2014).

Flokkunarkerfið skiptist í sex þætti sem eru:

 • hjúkrunargreining
 • orsakaþættir
 • einkenni
 • markmið hjúkrunarmeðferðar
 • hjúkrunarmeðferð
 • verkþættir

Ákveðnar skilgreiningar á manninum, heilbrigði, umhverfi og hjúkrun liggja til grundvallar hugmyndafræðinnar um hjúkrunarferli. Heilbrigði birtist samkvæmt þeim skilgreiningum í gagnkvæmum samskiptum einstaklings og umhverfis og endurspeglast í níu mannlegum viðbrögðum: breytingu, tjáskiptum, tengslamyndun, gildismati, vali, hreyfingu, skynjun, þekkingu og tilfinningu.

Hjúkrunargreiningar raðast því saman í einn af níu flokkum mannlegra viðbragða eftir því hvert innihald þeirra er. Hver flokkur viðbragða hefur númer og hver hjúkrunargreining hefur eigið númer sem vísar til þess í hvaða flokki viðbragða hún er. Forsenda hjúkrunargreiningar er mat á þeim upplýsingum sem aflað hefur verið um heilsufar sjúklings (Ásta Thoroddsen, 2002). Heilsufarslyklar sem kenndir eru við Marjory Gordon eru notaðir á Íslandi til að skrá upplýsingar hjúkrunar (Gordon, 2007).

Yfirlit yfir þá heilsufarslykla sem liggja til grundvallar hjúkrunarmeðferð á Íslandi:

 • Heilbrigðisviðhorf – heilsuefling
 • Næring og efnaskipti
 • Útskilnaður
 • Sjálfsbjörg, virkni og hvíld
 • Skynjun og vitsmunir
 • Sjálfsskynjun
 • Hlutverk og félagsleg tengsl
 • Kynlíf
 • Aðlögun og streituþol
 • Lífsskoðanir
 • Öryggi og varnir
 • Líðan
 • Vöxtur og þroski  

Hjúkrunarmeðferð

Flokkun hjúkrunarmeðferðar á við um staðlaðar skilgreiningar og lýsingu á þeirri meðferð, sem hjúkrunarfræðingar beita í starfi sínu.

Árangur hjúkrunarmeðferðar

Frá árinu 1991 hefur hópur hjúkrunarfræðinga við háskólann í Iowa í Bandaríkjunum unnið að þróun viðmiða til að mæla árangur hjúkrunarmeðferðar. Afrakstur þeirrar þróunar er flokkunarkerfi um mat á árangri hjúkrunarmeðferðar og hefur frumgerð þess verið innleidd í sjúkraskrá Reykjalundar. Tilgangur þess að flokka hjúkrunarmeðferð er að greina, nefna, meta og flokka þann árangur hjúkrunarmeðferðar sem sést í breytingum og framförum sjúklinga. Mat á árangri felur í sér að meta hvort eða að hvaða marki sjúklingurinn hefur náð settum markmiðum. Hafi markmiðin verið sett fram á einstaklingsmiðaðan, raunhæfan og mælanlegan hátt er auðvelt að sjá hvort sjúklingurinn hefur náð þeim eða ekki. Hafi markmið náðst er vandamáli lokið, hafi markmið náðst að hluta er vandinn enn til staðar en í minna mæli, hafi markmið ekki náðst þarf að gera ráðstafanir til að sjúklingur geti haldið áfram að vinna að markmiðinu – annaðhvort á eigin vegum eða með hjálp annarra. Í slíkum tilfellum skrifar umsjónarhjúkrunarfræðingur sjúklings hjúkrunarbréf til þess hjúkrunarfræðings sem sér um hjúkrunarmeðferð hans eftir útskrift.

Heimildir: 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7