Á Reykjalundi

SundlaugStarfsemin á Reykjalundi byggir á hugmyndafræði endurhæfingar. Hún er þverfagleg og fer fram í teymum. Sérþekking er innan hvers teymis sem byggir á grunnsjúkdómum þess sjúklingahóps sem verið er að endurhæfa.

Færniskerðing af völdum sjúkdóma eða slysa er langt í frá sjúkdómabundin og eru því mörgum meðferðarúrræðum beitt þvert á teymin. Fræðsla er bæði sérsniðin og almenn. Kennd er slökun, streitustjórnun og aðferðir til að ná jafnvægi í daglegu lífi. Allir sjúklingar sem þess þurfa fá tilsögn í undirstöðu holls mataræðis og hvernig hægt er að stefna að reyklausu lífi. Boðið upp á geðskóla og verkjaskóla. Sérhæfð fræðsla er fyrir Parkinsonsjúklinga, lungna- og hjartasjúklinga og fyrir fólk í yfirþyngd svo eitthvað sé nefnt. Farið er í gönguferðir utanhúss daglega og eru þær miðaðar við getu hvers og eins. Leikfimi er bæði á sal og í laug svo og leiðsögn og þjálfun í tækjasal.

Reykjalundur er með þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands þar sem tiltekið er hvaða  sjúklingahópum Reykjalundur sinnir.

Á Reykjalundi fer fram endurhæfing fyrir sjúklinga með

  • sjúkdóma í taugakerfi. Endurhæfing sjúklinga með taugasjúkdóma fer einnig fram á endurhæfingardeild LSH að Grensási og er samvinna milli stofnananna um verkaskiptingu.
  • geðræn vandamál. Flestir sjúklinga sem þangað koma með beiðni frá heilsugæslulæknum og sérfræðingum á stofu.
  • lungna- og hjartasjúkdóma og er mikil samvinna milli starfsfólks Reykjalundar og Landspítalans um endurhæfingu þessara sjúklinga.
  • lífshættulega offitu. Samvinna um meðferð þessa hóps er einnig við sérfræðinga á Landspítala.
  • langvinna verki. Samanlagt eru stærstu meðferðarsviðin verkja- og gigtarsvið Reykjalundar. Þau ásamt sviði starfsendurhæfingar eru lýsandi fyrir vaxandi fjölda fólks sem glímir við langvinn verkjavandamál. Fleiri og fleiri rannsóknir sýna fram á mikilvægi þverfaglegrar vinnu í kringum þennan hóp og mikilvægt að halda vel utan um þessa meðferð og ekki síst efla tengsl starfsendurhæfingar við þá meðferð sem þessi svið veita.
Heilbrigt líferni og hjálp til sjálfhjálpar
Langvinnir sjúkdómar sem þurfa langtíma meðferð og eru  margir hverjir lífsstílsstengdir eru stærsta heilbrigðisvandamál nútímans. Því er lögð mikil áhersla á grunnþætti heilbrigðs lífs í endurhæfingarferlinu á Reykjalundi svo sem:
  • heilsusamlegt mataræði
  • reykleysi
  • hreyfingu
  • góðan svefn

Eins er mikil áhersla lögð á virka  þátttöku og ábyrgð  sjúklings í endurhæfingarferlinu. Endurhæfing er því hjálp til sjálfshjálpar.

Heimildir: 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18