Endurhæfing

Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið að endurhæfa að gera einhvern (með þjálfun) hæfan á ný (til starfa). Þjóðir í kringum okkur nota flestar orð yfir endurhæfingu og endurhæfingarlækningar með orðstofnana physio (þjálfun) og rehab (aðlögun að(atvinnu) lífinu eftir sjúkdóm eða slys). Má segja að þessi orðasamsetning nái betur yfir þá hugmyndafræði sem unnið er út frá í þverfaglegri endurhæfingu.

GönguleiðSkilgreining WHO á endurhæfingu

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO skilgreinir endurhæfingu á eftirfarandi hátt: Endurhæfing fólks með fötlun er ferli sem hefur það að markmiði að það nái og viðhaldi þeirri bestu líkamlegu, skynrænni, vitrænni, sálrænni og félagslegri færni sem möguleg er. Endurhæfing færir fötluðu fólki þau verkfæri sem þarf til að það geti átt sitt sjálfstæða líf og haft sjálfsákvörðunarrétt yfir því.

Endurhæfing er heildræn, þverfagleg og sérhæfð meðferð

Endurhæfing í þrengstu skilgreiningu er þannig  heildræn, þverfagleg og sérhæfð meðferð. Hún er tímatakmörkuð. Hún byggir á samvinnu margra fagaðila, sjúklings og hans nánustu eftir atvikum. Beitt er sál-, líkamlegum og félagslegum aðferðum (biopsychosocial), með það að markmiði að uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingar í færni og virkni sem orsökuð er af sjúkdómum eða vegna slysa. Meðferðin er heildræn og byggir á þverfaglegri samvinnu þar sem virðing er borin fyrir þekkingu hvers og eins og stefnt að betri árangri en ef hver fagmaður vinnur þröngt innan síns sérsviðs.

Markmið endurhæfingar er að auka færni, virkni og þátttöku sjúklings í lífi og starfi og bæta lífsgæði hans. Í meðferðinni felst jafnframt að tekið er mið af persónulegum þáttum sjúklings (meðal annars menntun, fjölskylduhögum, menningu og kyni) og umhverfisþáttum (meðal annars búsetu og samfélagi).

Endurhæfing
  • Færni
  • Virkni
  • Þátttaka