Starfræn taugaeinkenni
Með starfrænum taugaeinkennum (functional neurological symptoms) er átt við einkenni sem ekki verða útskýrð með sjúkdómi eða skaða í taugakerfinu. Segja má að það verði röskun á starfsemi eða virkni taugakerfisins án þess að vefræn skýring finnist við rannsóknum.
Starfræn taugaeinkenni geta verið margvísleg en oftast er um að ræða lömun, truflun á göngulagi, krampa, kippi/skjálfta eða skyntruflun.
Ekki er vitað af hverju einstaklingar fá starfræn taugaeinkenni en þekkt er að t.d. þeir sem hafa lent í ýmsum áföllum eða álagi eru líklegri til að fá þessi einkenni. Starfræn einkenni eru algengari hjá konum. Einstaklingar með aðra taugasjúkdóma geta einnig fengið starfræn einkenni. Um nokkuð algeng einkenni er að ræða en talið er að nýgengi starfrænnar lömunar sé um 5/100.000. Í sumum tilvikum ganga einkenni til baka á stuttum tíma en ef þau verða viðvarandi getur fólk þurft á meðferð fagaðila að halda, t.d. sjúkraþjálfara, eða þverfaglega endurhæfingu.
Einstaklingar sem fengið hafa greininguna starfræn taugaeinkenni (starfræna taugakerfisröskun) og einkenni hafa ekki gengið til baka og talin þörf á þverfaglegri endurhæfingu.
Functional and Dissociative Neurological Symptoms: a patient's guide
www.neurosymptoms.org
Okkar nálgun
Einstaklingur kemur oftast fyrst í viðtal á göngudeild Reykjalundar til að meta þörf á endurhæfingu og undirbúa mögulega innlögn. Þá er greiningin rædd og farið yfir hvaða meðferð hefur verið reynd og lagt mat á þörf á frekari endurhæfingu og meðferð. Þegar einstaklingur kemur svo á Reykjalund í endurhæfingu er gert þverfaglegt mat þar sem einkenni eru kortlögð/skilgreind ásamt líðan og færni. Sett eru markmið til lengri og skemmri tíma sem snúa að því að draga úr einkennum, bæta líðan og auka virkni og þátttöku eins og við á.
Meðferð
Endurhæfingin er alltaf einstaklingsmiðuð. Fyrstu 1-2 vikurnar fer fram greiningarvinna samhliða meðferð en meðferðin er yfirleitt fjórar til sex vikur og í sumum tilvikum lengur.
Endurhæfingin felur í sér þverfaglega nálgun og meðferð vegna vanda fólks með starfræn taugaeinkenni þar sem samvinna teymis og einstaklingsins er mjög mikilvæg.
Sértæk meðferð
- Veitt er formleg og óformleg fræðsla um starfræn taugaeinkenni
- Fræðsla er veitt um sértæk einkenni sjúkdómsins og hvernig hægt er að draga úr þeim
- Markmið eru sett í samvinnu við einstaklinginn
- Þjálfun sem beinist að því að beina athygli að öðru og auka úthald og styrk
- Unnið er markvisst að því að auka færni, þjálfa í gegnum athafnir og beina athyglinni frá starfrænum einkennum og að sjálfu verkefninu
- Unnið er með raunveruleg verkefni innan Reykjalundar og heimafyrir eins og mögulegt er
- Lögð er áhersla á jafnvægi í daglegu lífi, að draga úr álagi eins og við á og setja sér mörk í daglegu lífi
- Vinna með andleg einkenni og áföll eftir þörfum, t.d. með hugrænni atferlismeðferð