Parkinsonsveiki

BlómÁ Íslandi eru allt að 600 einstaklingar með parkinsonsveiki, sem er einn algengasti taugasjúkdómurinn á landinu. Orsakir eru ekki fullþekktar, en talið er að þær séu samspil erfða og umhverfis. Einkenni stafa af vaxandi hrörnun frumna í miðtaugakerfi, einkum hrörnun í djúphnoðum sem framleiða dópamín.

Helstu einkenni eru hægar og minnkaðar hreyfingar, stirðleiki, skjálfti og jafnvægistruflun. Ýmis önnur einkenni geta komið fram svo sem truflanir í meltingu, kyngingu, tali, vitrænni getu og andlegri líðan. Mörg einkenni sjúkdómsins hafa áhrif á athafnir og þátttöku í daglegu lífi.
Meðferð hefur fyrst og fremst verið lyfjameðferð, en rannsóknum fjölgar sem sýna að þjálfun hafi jákvæð áhrif á sum einkenni sjúkdómsins og þannig geti einstaklingurinn sjálfur haft áhrif á  færni sína, æfingin skapar meistarann.

Hér má finna fræðslumyndbönd um sjúkdóminn og úrræði.
Einstaklingum sem greinast með parkinsonsveiki stendur til boða meðferð í hópi. Þar sem endurhæfingin hefur áhrif á framgang sjúkdómsins er ákjósanlegt að koma sem fyrst í endurhæfingu eftir greiningu.
Ef einhver ný vandamál tengd sjúkdómnum koma upp er möguleiki á mati á göngudeild. Einnig er möguleiki á endurtekinni meðferð á dagdeild ef vandi er flókinn og þarfnast þverfaglegrar meðferðar.
Í parkinsonsteymi starfa endurhæfingar- og taugalæknir, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og talmeinafræðingar, auk félagsráðgjafa, næringarfræðings og sálfræðinga eftir þörfum.
Ýmis mælitæki eru notuð til að greina einkenni og meta árangur þjálfunar. Hér eru nokkur þau algengustu:
 • Hoehn & Yahr
 • Unified Parkinson´s Disease Rating Scale
 • Parkinson´s Disease Questionnaire – 39
 • Non Motor Symptoms – Questionnaire
 • 6 mín göngupróf / 2 km göngupróf
 • 10 m göngupróf
 • Timed Up & Go
 • Berg jafnvægiskvarði
 • Box & Block
 • Gripstyrksmæling
 • Athugun á rödd og tali parkinsonssjúklinga (ART-P)
Í samráði við hvern einstakling er gerð útskriftaráætlun með áherslu á áframhaldandi þjálfun. Í sumum tilvikum veita sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar eftirfylgd eftir þrjá mánuði.
Okkar nálgun
Fólki með parkinsonsveiki býðst að koma í fjögurra vikna endurhæfingu.
Heildarmarkmið endurhæfingar eru að sjúklingurinn
 • bæti og viðhaldi líkamlegri, andlegri og félagslegri færni
 • fái fræðslu um sjúkdóminn og leiðbeiningar um úrræði
 • efli virkni og ábyrgð á eigin heilsu
 • fái ráðleggingar um hvernig megi viðhalda færni eftir að heim er komið
 • og fjölskyldan aðlagist lífi með langvinnan sjúkdóm

Þjálfun og fræðsla fer fram í litlum hópum og er raðað í hópana eftir upplýsingum sem fram koma á beiðni. Biðtíminn er breytilegur, en stefnt er að því að hann sé ekki lengri en fjórir mánuðir. Ef ný vandamál koma upp sem þarfnast þverfaglegrar íhlutunar er möguleiki á einstaklingsmeðferð.

Meðferð

Endurhæfing felur í sér þverfaglega nálgun og meðferð vegna vanda fólks með parkinsonsveiki. Líkamleg þjálfun miðar að því að auka styrk, þol, jafnvægi og handafærni. Fræðsla er veitt um jafnvægi í daglegu lífi, kennd er slökun og gerð er virknitafla í samvinnu við einstaklinginn.

Sértæk meðferð
 • Lögð er áhersla á fræðslu um sjúkdóminn.
 • Frætt er um sértæk einkenni sjúkdómsins og unnið er að úrlausn þeirra eftir því sem við á.
 • Gönguþjálfun með áherslu á aukna skreflengd.
 • Jafnvægisþjálfun og sértæk þjálfun til að auka fallviðbragð.
 • Talþjálfun miðar að því að auka raddstyrk og bæta andlitshreyfingar og fylgir hugmyndafræði Lee Silverman.
 • Haldinn er fræðslufundur með aðstandendum og þar gefst tækifæri til ræða málefni sem valda áhyggjum og læra af reynslu annarra.
 • Metin er þörf fyrir hjálpartæki og aðlögun umhverfis. Sótt er um hjálpartæki ef þurfa þykir.