Heilaskaði

HeilaskaðiÁ Íslandi leita um 900 manns á ári hverju á heilbrigðisstofnun vegna höfuðáverka. Af þeim eru um 80 manns með skaða sem greinist í myndgreiningu sem heilamar- eða bólga. Þessi fjöldi er svipaður og sést erlendis.

Helstu vandamál þeirra sem hljóta heilaskaða eru ýmsar vitrænar truflanir eins og skert innsæi, erfiðleikar með rökhugsun, með einbeitingu, minni og mál. Einnig andleg vanlíðan og erfiðleikar í samskiptum. Hlutverk í fjölskyldu breytast, innkoma minnkar og framtíðarplön riðlast. Heilaskaði hefur því ekki aðeins áhrif á viðkomandi einstakling heldur einnig alla fjölskylduna og nánasta umhverfi. Að auki gerir vitræn skerðing það oft að verkum að einstaklingurinn ræður ekki við að halda utan um sína eigin endurhæfingu og hafa frumkvæði að því að nýta þjónustu er stendur til boða.

Heilaskaði - Almennar upplýsingar (pdf)

Flestir einstaklingar með heilaskaða/vitræna skerðingu geta nýtt sér meðferðina óháð orsök heilaskaðans en einstaklingar með vitræna skerðingu vegna heilabilunarsjúkdóma er vísað á Minnismóttöku Landspítalans.

Orsakir heilaskaða eru mismunandi:

 • Höfuðáverki vegna slysa, t.d. bílslys, vinnuslys, líkamsárása, föll og byltur.
 • Sjúkdómatengdur heilaskaði t.d. vegna heilaæxlis, heilablæðingar eða heilaslags, taugasjúkdóma eins og MS-sjúkdóms og parkinsonsveiki.

Fólk með áfengis- eða fíkniefnavanda verður að vera án virkrar neyslu (og hafa tekin ákvörðun að hætta neyslu) í sex mánuði fyrir endurhæfingu.

Í heilaskaðateyminu starfa endurhæfingarlæknir, taugasálfræðingur, klínískur sálfræðingur, félagsráðgjafi, iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari og talmeinafræðingur. Heilaskaðameðferð er flókin og reynir mjög á sérþekkingu og góða teymisvinnu fagfólks.
Í upphafi innlagnar eru sett markmið í samvinnu við einstaklinginn. Þessum markmiðum er fylgt eftir meðan á innlögn stendur og í lok endurhæfingartímabilsins er farið yfir hvernig gengið hefur að ná þeim markmiðum.
Í flestum tilvikum er endurhæfingarmarkmiðum fylgt eftir á göngudeild en fjöldi viðtala og lengd eftirfylgdar er einstaklingsbundinn.
Okkar nálgun
Í fyrstu viku innlagnar er gert þverfaglegt mat þar sem metin eru áhrif heilaskaðans á daglegt líf, gert taugasálfræðilegt mat og upplýsingar fengnar frá einstaklingnum og aðstandendum.

Alltaf er tekin afstaða til eftirfarandi þátta:

 • Virkni í formi starfs, náms, tómstunda eða annarra hlutverka
 • Framfærslu
 • Að halda heimili
 • Samskiptafærni
 • Aksturs
 • Andlegrar líðan

Út frá þessu þverfaglega mati eru sett markmið fyrir einstaklinginn, bæði til skemmri og lengri tíma. Haldnir eru markmiðsfundir eftir þörfum þar sem farið er yfir framgang og ný markmið sett fyrir næstu 1-3 vikur.

Meðferð

Endurhæfing heilaskaðateymis er alltaf einstaklingsmiðuð. Fyrstu 1-2 vikurnar fara í greiningarvinnu en meðferðin er yfirleitt fjórar til sex vikur og í sumum tilvikum lengur.

Sértæk meðferð
 • Auka virkni viðkomandi og tengja við vinnu, skóla eða önnur úrræði sem eiga við.
 • Hvetja til að stunda nærandi tómstundir sem veita viðkomandi ánægju og lífsgleði.
 • Tryggja félagslegan stuðning og önnur úrræði í þjóðfélaginu og nærumhverfi.
 • Hjálpa fjölskyldu og umhverfi að aðlaga sig að þeim breytingum sem fötlunin hefur.
 • Vinna með þá vitrænu þætti sem er hvað mest hamlandi í lífi viðkomandi, t.d. innsæi, athygli, minni og vinnsluhraða
 • Bæta andlega líðan
 • Auka félagslega færni
 • Bæta líkamlega færni
 • Veita fræðslu um heilaskaða, fyrir einstaklinginn, aðstandendur, vinnuveitanda/skóla, félagsþjónustu eða aðra sem eru í nærumhverfi viðkomandi.