Hæfing

MunarmálariHæfing er ætluð einstaklingum með meðfædda eða snemma áunna fötlun. Hæfing á Reykjalundi á sér langa sögu en sífellt er unnið að því að efla og þróa starfsemina. Lögð er áhersla á að sinna ungu fólki frá átján ára aldri sem statt er á tímamótum unglings- og fullorðinsára, svo og fötluðum einstaklingum sem vilja endurmeta stöðu sína og fá viðeigandi faglegan stuðning til að finna lífi sínu nýjan og betri farveg.

Einstaklingar með meðfædda eða snemma áunna hreyfiskerðingu með eða án þroskaskerðingar. Margar tilvísanir koma frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins en einnig koma tilvísanir frá heilsugæslu eða sérfræðilæknum.

Litið er á hvern einstakling heildrænt út frá alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni, fötlun og heilsu (ICF). Hver og einn fær stuðning við að ná markmiðum sínum sem t.d. geta snúið að því að hafa hlutverk, geta sinnt störfum sínum, námi, þjálfun og tómstundaiðju.  Endurhæfing fyrir ungt fólk með fötlun er í boði allt árið á Reykjalundi en beiðnir berast frá bæði heilsugæslulæknum og sérfræðingum.

Flest mál hæfingarteymis felast í þverfaglegu mati sem unnið er að mestu á göngudeild en einnig eru dæmi um að einstaklingar komi í nokkurra vikna þverfaglega endurhæfingu. Hæfingarmat á göngudeild fer þannig fram  að einstaklingur kemur í viðtal á göngudeild, oft með foreldri eða stuðningsaðila, og er þá farið yfir aðstæður og færni einstaklingsins. Teymið skoðar málið og leggur fram ráðleggingar sem geta falist í breyttri eða aukinni þjónustu, þjónustufundum, sértækara mati á ákveðnum þáttum eða meðferð á Reykjalundi. Eftirfylgd er misjöfn eftir því hvernig málum háttar og getur falist í viðtölum á göngudeild eða símtölum. Hægt er að leita aftur til Reykjalundar síðar til að fá ráðgjöf ef þörf er á frekara mati á þjónustu- og þjálfunarþörf einstaklingsins eða aðgangi að sérfræðiþekkingu teymisins.

Á Reykjalundi er hæfingu sinnt á tvo vegu:

 • Hæfingarmat, en það er mat  á færniskerðingu, þjónustuþörf og meðferð ungs fólks. Matið fer fram með greiningarviðtali á göngudeild, teymisfundi og niðurstöðufundi. Í kjölfarið eru stundum haldnir þjónustufundir um ákveðin mál og einnig er stundum vísað í sérhæfða meðferð á Reykjalundi.
 • Einstaklingsmiðuð þverfagleg endurhæfing á Reykjalundi þar sem unnið er með sértæk mál, svo sem jafnvægisskerðingu, athafnir daglegs lífs, tjáningu, áhugahvöt og hegðun.

Samstarf við sveitarfélög og þjónustuaðila í nærumhverfi einstaklingsins er mikilvægur þáttur í starfi hæfingarteymis. Einstaklingar fá skriflega samantekt á því sem vinna má áfram að eftir útskrift.

Hæfingarteymið býr yfir  reynslu og þekkingu á ýmsum málum sem tengjast fötlun og færniskerðingu. Þar má meðal annars nefna:

 • Hjálpartækjum
 • Jafnvægisþjálfun
 • Færniþjálfun
 • Heimilisathugun
 • Talþjálfun
 • Kyngingarmati og úrræðum
 • Farvegur fyrir menntunar- og búsetumál
 • Starfsendurhæfingu
 • Akstursmat