Þjálfun og hreyfing

Heilsubætandi þjálfun/hreyfing
Gangan

Það er mjög mikilvægt að snúa við þeim neikvæðu áhrifum sem vilja verða vegna hreyfingarleysis. Í því sambandi er talað um að ná heilsubætandi áhrifum þjálfunar / hreyfingar. Til þess að ná þessum heilsubætandi áhrifum þá er miðað við að lágmarki 30 mínútna hreyfingu daglega. Ef það næst ekki sem samfelld hreyfing – þá má það vera samanlagt, til dæmis 3x10 mín. eða 2x15 mínútur í senn. Gott er að temja sér ef mögulegt er, að ganga stiga í staðinn fyrir að taka lyftu og ganga styttri vegalengdir í stað þess að nota bíl. Öll dagleg hreyfing er til góðs.

Þolþjálfun

Þolþjálfun hefur áhrif á afkastagetu hjartavöðvans og nýtingu súrefnis í líkamanum sem leiðir til þess að þolið eykst. Einnig hefur þolþjálfun jákvæð áhrif á marga af áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Til þess að auka þol þarf að þjálfa 4-5 sinnum í viku, 40-60 mínútur í senn. Ákefðin þarf að samsvara 13-15 á Borg skala eða vera það mikil að maður hitni vel, jafnvel svitni og finni fyrir léttri mæði en ekki meiri en svo að hægt sé að spjalla!
Álagið á að vera hæfilega erfitt og aldrei skal finna til vanlíðunar meðan þjálfað er.
Í þolþjálfun þarf að velja hreyfingu þar sem stórir vöðvahópar eru notaðir og getur það verið ganga, sund, hjólreiðar, dans og fleira.
Einstaklingsbundið er hvaða hreyfing hentar hverjum og einum. Mikilvægt er að velja hreyfingu sem veitir ánægju og hægt er að hugsa sér að halda áfram að stunda.

Styrkþjálfun

Styrkþjálfun eykur styrk vöðva. Til að auka styrk þarf að nota þyngdir eins og til dæmis lóð, eigin líkamsþunga, teygjur eða æfingar í tækjum. Þjálfunin hefur fyrst og fremst áhrif á þann vöðvahóp sem þjálfaður er hverju sinni. Góður styrkur er ekki síst mikilvægur til þess að viðhalda góðri líkamlegri færni. Mikilvægt er að styrkþjálfun sé alltaf einstaklingsmiðuð og farið sé eftir leiðbeiningum fagfólks.
Ákefðin á ekki að vera meiri en sem samsvarar um það bil 13 á Borg skala.

Gangan er miserfið og er skilgreind sem ganga I, II, III eða IV. Erfiðið ræðst af gönguhraða, vegalengd og tímalengd. Þessar göngur eru í langflestum tilfellum utandyra.
Á Reykjalundi er góð sundlaugaraðstaða, æfingalaug sem er 10x12 metrar og önnur stærri sem er 25 metra löng, auk þess sem heitur pottur er við laugina. Boðið er upp á sundkennslu fyrir þá sem þess óska.
Þrír leikfimihópar eru skilgreindir. Þeir eru miserfiðir og með mismunandi áherslur, en markmiðið er alltaf að auka samhæfingu, liðleika og/eða styrk.
Sjúkraþjálfarar hjartasviðs gera æfingaprógramm með hverjum og einum í tækjasal, kenna á tækin og útskýra tilgang æfinganna.
Það eru fjórir vatnsleikfimihópar. Þeir eru miserfiðir en markmiðið með þeim öllum er að bæta liðleika, styrk og úthald.