Meðferð

Áður en endurhæfing á hjartasviði hefst fer fólk í læknisviðtal, tekið er hjartalínurit og í flestum tilvikum áreynsluþolpróf. Þolprófið er þá endurtekið við útskrift. Hjartaendurhæfingin felst í þjálfun, aðstoð við andlega og félagslega aðlögun, meðferð áhættuþátta og fræðslu.

Þolpróf

Við komu er gert áreynsluþolpróf undir stjórn læknis til þess að meta ástand hjartavöðvans, athuga svörun við álagi og fá viðmið fyrir þjálfunarprógrammið framundan. Í langflestum tilvikum fer áreynsluþolprófið fram á hjóli þar sem  viðkomandi er tengdur við hjartalínurit og fylgst með púls- og blóðþrýstingssvörun. Vatnsleikfimi Í sumum tilfellum eru gerð gönguþolpróf innandyra, oftast sex mínútna göngupróf.

Þjálfun

Þjálfunin í hjartaendurhæfingunni er bæði þol og styrkþjálfun. Hún er einstaklingsmiðuð og tekur mið af niðurstöðum áreynsluþolprófs við innskrift og sjúkrasögu. Þjálfunin fer mikið til fram í hópum undir handleiðslu sjúkraþjálfara eða heilsuþjálfara.
Þolþjálfunin felst meðal annars í þátttöku í göngu, sundi og leikfimi en einnig í sérstökum hjólahópum undir eftirliti sjúkraþjálfara þar sem fylgst er náið með hvernig hjartað bregst við álagi. Styrkþjálfunin felst meðal annars í æfingum í tækjasal, vatnsleikfimi og leikfimi.
Til viðbótar þessu þjálfunarprógrammi er boðið upp á fleiri möguleika til hreyfingar/þjálfunar og er það þá gert í samráði við og eftir óskum hvers og eins, og eru möguleikarnir árstíðabundnir að hluta.