Áhættuþættir
Orðin ofþyngd og offita eru oft notuð til að lýsa því þegar líkaminn hefur safnað of mikilli fitu. Talað er um að einstaklingar í hæfilegri líkamsþyngd séu með 17-25% líkamsfitu. Eftir því sem fituhlutfallið hækkar umfram þetta fjölgar þeim heilsuvandamálum sem einstaklingur á í hættu að þróa með sér. Fólk með mikla líkamsfitu er gjarnan með meiri fitu í blóðinu (kólesteról og þríglýseríð) og hærri blóðþrýsting sem eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Af þessum ástæðum flokkast ofþyngd og offita sem áhættuþáttur auk þess að vera flokkað sem sjúkdómur útaf fyrir sig.
Í endurhæfingu á Reykjalundi býðst einstaklingum í ofþyngd eða með offitu að sitja ofþyngdarfræðslu þar sem farið er í tengda þætti. Auk þess býðst einstaklingum fræðsla og viðtal hjá næringarfræðingi, sjúkraþjálfara, lækni og hjúkrunarfræðingi sér til aðstoðar.
Sykursýki er langvinnur efnaskiptasjúkdómur þar sem sykur (glúkósi) eykst í blóði. Sjúkdómurinn er ólæknandi en einstaklingar með sykursýki geta lifað fullkomlega eðlilegu lífi með réttri meðferð. Því er mikilvægt að setja sig vel inn í málin og taka virkan þátt í sinni meðferð sem felur bæði í sér lyfjagjöf og lífsstílsbreytingar. Öll meðferð sykursýki miðar að því að fyrirbyggja fylgikvilla og er það gert með því að hafa góða stjórn á blóðsykri, blóðþrýstingi og blóðfitu. Helstu fylgikvillar eru æðasjúkdómar líkt og kransæðasjúkdómar.
Í endurhæfingu á Reykjalundi býðst einstaklingum með sykursýki að sitja sykursýkisfræðslu þar sem farið er í tengda þætti. Auk þess býðst einstaklingum fræðsla og viðtal hjá næringarfræðingi, sjúkraþjálfara, lækni og hjúkrunarfræðingi sér til aðstoðar.
Streita er einn af áhættuþáttunum fyrir hjartasjúkdóma. Það upplifa allir streitu á á einhverjum tímapunkti í lífinu en þegar streitan er orðin langvarandi getur hún haft skaðlegar afleiðingar fyrir líkamlega og andlega heilsu. Einnig er það er algengt að hjartasjúklingar upplifi einhvers konar ótta eða óöryggi í tengslum við heilsu sína.
Flestum sem koma til endurhæfingar á hjartasviði er boðið að
taka þátt í námskeiði um jafnvægi í daglegu lífi, sem fer fram í hópi
undir stjórn iðjuþjálfa.
Þátttakendur fá tækifæri til að skoða sitt eigið líf, jafnvægi milli
skyldustarfa og tómstunda og hvernig undangengin veikindi hafa haft
áhrif á færni þeirra til að sinna hlutverkum sínum. Lögð er áhersla á að
þátttakendur læri um helstu streitueinkenni, streituvalda og bjargráð
við streitu og ójafnvægi. Þátttakendur velta fyrir sér hvaða markmið
þeir hafa varðandi eigið jafnvægi eftir útskrift.
Einnig er boðið er upp á fræðslu og þjálfun í slökun. Markmið slökunarinnar er að þátttakendur verði meðvitaðir um ástand hugar og líkama og nái að tileinka sér tækni sem er mikilvæg til að læra að hvílast, vinna á móti svefnleysi, kvíða og streitu.
Tóbaksleysi er skilyrði fyrir hjartaendurhæfingu. Þ.e. bæði reyk- og reyklaus tóbaksnotkun (sígarettur, nef-munntóbak og vape). Allar þessar tegundir tóbaks hafa veruleg áhrif á hjarta- og æðakerfið og er því stór áhættuþáttur fyrir hjartasjúklinga.
Við innköllun eru veittar upplýsingar og ráð til undirbúnings tóbaksleysis. Einnig er fræðsla og stuðningsfundir í boði meðan á endurhæfingu stendur.