Gigtarteymi

Endurhæfing gigtarsviðs miðar að því að styðja einstaklinga í að finna leiðir til að lifa með sínum sjúkdómi, bæta lífsgæði og auka virkni í daglegu lífi. Leitast er við að veita þverfaglega, einstaklingsmiðaða og heildræna meðferð. Tekið er á líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum eftir því sem við á. Mikilvægt er að einstaklingar taki virkan þátt í endurhæfingunni.

Eftir mat á beiðnum sem berast er skjólstæðingum ýmist boðið að koma í forviðtal, á kynningar- og matsdaga eða beint til meðferðar.

Endurhæfingin byrjar oftast á kynningar- og matsdögum. Skjólstæðingurinn kemur þá í 4 daga þar sem fagfólk leggur mat á heilsu hans, getu og viðhorf. Hann fær fræðslu og stuðning við að setja sér markmið og finna leiðir til heilsueflingar í sínu nærumhverfi. Að kynningardögum loknum fær skjólstæðingurinn eftirfylgd og stuðning í formi göngudeildar- og/eða símaviðtala. Lagt er mat á hvort og þá hvenær skjólstæðingurinn hafi þörf á áframhaldandi meðferð á gigtarsviði. Mikilvægt er að skjólstæðingurinn sé virkur í sinni endurhæfingu og taki ábyrgð á eigin heilsu.

Leitast er við að veita þverfaglega, einstaklingsmiðaða og heildræna meðferð. Tekið er á líkamlegum, andlegum og félagslegum vandamálum eftir því sem við á.

Endurhæfingin byggir á einstaklings- og hópmeðferð. Áhersla er lögð á líkamlega, andlega og félagslega virkni.

Meðferðartíminn er einstaklingsbundinn en að jafnaði 4-6 vikur.

Á gigtarsviði fer fram endurhæfing einstaklinga með langvinn stoðkerfiseinkenni og magnleysi af völdum gigtarsjúkdóma s.s. bólgugigtar, slitgigtar og vefjagigtar. Einnig endurhæfing einstaklinga með langvinn verkjavandamál og eftir alvarleg veikindi og álag.

Námskeið:

  • Verkjaskóli
  • Slökun- og streitustjórnun
  • Geðheilsuskóli
  • Hugræn atferlismeðferð

Fræðsla:

  • Um hreyfingu
  • Um liðvernd
  • Um neysluvenjur
  • Um reyklaust líf
  • Um vefjagigt

Símatími Hafdísar Gunnarsdóttur hjúkrunarstjóra gigtarsviðs er á mánudögum kl. 11-12. Einnig er hægt að hafa samband á Reykjalund í síma 585-2000 og fyrirspurnum verður svarað eins fljótt og hægt er.