Meðferð

Í upphafi meðferðar sjúkraþjálfara er staðan tekin með ítarlegu viðtali, upplýsingaöflun um líkamlegt ástand, skoðun og mælingum. Í samvinnu við skjólstæðing er gerð einstaklingsmiðuð áætlun um næstu skref.

Markmið meðferðar sjúkraþjálfara getur verið að auka líkamsvitund, draga úr álagi á liði og vöðva, minnka verki, auka styrk og úthald, draga úr byltuhættu, viðhalda liðleika og mýkt vöðva.

Meðferðin felur í sér ýmis handtök, notkun rafmagnstækja, fræðslu, sértæka þjálfun og tilsögn. Einnig almenn þjálfun til að draga úr áhrifum ólíkra sjúkdómseinkenna og veikinda og auka möguleika til þátttöku í daglegu lífi.

Notast hefur við meðferðarformið hópþjálfun á Reykjalundi allt frá árinu 1980 er nokkrir starfsmenn fóru utan og kynntu sér það í Noregi. Meðferð í hópum er mjög mikilvæg og ekki síður skemmtileg fyrir skjólstæðinga að fá að reyna sig með öðrum. Einnig sinna sjúkraþjálfarar viðtölum á göngudeild fyrir og eftir endurhæfingu á Reykjalundi.

Margir fræðslu- og þjálfunarhópar sem sjúkraþjálfarar stýra eða eru hluti af þverfaglegu teymi eru í boði á Reykjalundi:

 • Vatnsleikfimi
 • Hreyfiflæði
 • Gönguhópar
 • Háls- og herðahópur
 • Þrekþjálfun í hjólasal
 • Færniþjálfun
 • Jafnvægishópur
 • Líkamsvitund
 • Dans
 • Verkjaskóli
 • Geðheilsuskóli
 • Lungnaskóli
 • Vinna á rannsóknarstofu
 • Þátttaka í fræðslu á öllum meðferðasviðum