Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfarar á Reykjalundi eru í lykilhlutverki í meðferð skjólstæðinga og starfa í þverfaglegum teymum með öðrum heilbrigðisstéttum. Sjúkraþjálfarar veita skjólstæðingum þjónustu sem miðar að því að bæta, viðhalda og endurhæfa hreyfifærni til aukinna lífsgæða. Þjónustan felur í sér greiningu og meðferð líkamlegra einkenna, þjálfun og leiðsögn til sjálfshjálpar og vinnu við forvarnir gegn frekari heilsu bresti.

Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á þekkingu á stoðkerfi og hreyfikerfi líkamans. Starfið felst í að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu getur raskað lífi einstaklingsins. Verkefni sjúkraþjálfara eru fjölbreytt þar sem hreyfigeta líkamans, hreyfihegðun einstaklingsins og umhverfið sem sjúklingurinn hreyfir sig í er órjúfanleg heild.

Meðferð sjúkraþjálfara byggir á mati, mælingu og greiningu vanda einstaklingsins. Í meðferðinni er beitt fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand hvers og eins. Mikil áhersla er lögð á hvatningu og ráðgjöf varðandi hreyfingu og líkamsþjálfun að endurhæfingu lokinni, allt til að viðhalda markmiðum endurhæfingarinnar.

Saga

Saga sjúkraþjálfunar á Reykjalundi spannar 60 ár. Árið 1963 var sjúkraþjálfunardeild formlega stofnuð, 1987 flutti deildin í núverandi húsnæði.  Þjálfunarhúsið var svo vígt 2002. Árið 2020 eru 22 sjúkraþjálfarar að störfum auk 5 aðstoðarmanna og sundlaugarvarða.

Nám

Sjúkraþjálfun er fimm ára nám við Námsbraut í sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands. Það skiptist í þriggja ára BS nám (180 eininga) í sjúkraþjálfarafræðum og tveggja ára MS nám (120 eininga) í sjúkraþjálfun. Markmið námsins er að mennta sjúkraþjálfara til starfa á mismunandi sviðum innan sjúkraþjálfunar og gefa góðan grunn undir framhaldsnám á ýmsum sérsviðum.

Félag íslenskra sjúkraþjálfara

Háskóli Íslands