Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á þekkingu á stoðkerfi og hreyfikerfi líkamans. Starf sjúkraþjálfara er meðal annars fólgið í nákvæmri greiningu og meðferð ýmissa sjúkdómseinkenna sem tengjast truflun á hreyfigetu, færni og starfshæfni.

SjúkraþjálfariStarf sjúkraþjálfara er mjög fjölbreytt og sjúkraþjálfarar vinna við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu geta raskað lífi einstaklingsins.

Meðferð sjúkraþjálfara byggir á mati, mælingu og greiningu vanda einstaklingsins. Í meðferðinni er beitt fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand hvers og eins. Markmið meðferðar er m.a. að bæta líkamsstöðu og –beitingu, bæta styrk og úthald, viðhalda eðlilegum liðleika liða og mýkt vöðva, draga úr verkjum, einnig að auka almennt líkamlegt þol og almenna líkamlega færni.

Saga

Sjúkraþjálfun hófst á Reykjalundi árið 1962 með sjúkraþjálfara í hlutastarfi og ári síðar var sjúkraþjálfunardeild formlega stofnuð. Nú árið 2012 eru 18 stöðugildi sjúkraþjálfara á Reykjalundi. Aðstoðarfólk og sundlaugarverðir eru samtals 6.

Nám

Sjúkraþjálfun er fimm ára nám við Námsbraut í sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands. Það skiptist í þriggja ára BS nám (180 eininga) í sjúkraþjálfarafræðum og tveggja ára MS nám (120 eininga) í sjúkraþjálfun. Markmið námsins er að mennta sjúkraþjálfara til starfa á mismunandi sviðum innan sjúkraþjálfunar og gefa góðan grunn undir framhaldsnám á ýmsum sérsviðum.

Frekari upplýsingar um sjúkraþjálfun:

Félag íslenskra sjúkraþjálfara

Háskóli Íslands