Menntun

StyttaHægt er að læra grunnnám í sálfræði og brautskrást með BS/BSc eða BA gráðu í sálfræði við þrjá háskóla á Íslandi; Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Námið tekur þrjú ár (180 ECTS einingar).

Til að gefa starfað sem sálfræðingur þarf að útskrifast úr framhaldsnámi hérlendis eða erlendis og fá löggildingu landlæknis. Hér á landi er námið annars vegar kennt við sálfræðideild Háskóla Íslands og brautskrást nemendur með cand.psych. gráðu. Kandídatsnámið tekur tvö ár (120 einingar) og er bæði  fræðilegt og verklegt. Lögð er megináhersla á tvö svið hagnýtrar sálfræði sem eru klínísk sálfræði fullorðinna annars vegar og klínísk barnasálfræði og skólasálfræði hins vegar.

Hins vegar er MSc í klínískri sálfræði kennt við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Námið sameinar grundvallarsvið klínískrar sálfræði og helstu gagnreyndu nálganir hugrænnar atferlismeðferðar og hagnýtrar atferlisgreiningar. Efni og uppbygging námsins er svipuð námi í klínískri sálfræði erlendis, sérstaklega á Norðurlöndum (cand. psych gráða). Nemendum er veitt þjálfun á sviði sálfræði fullorðinna, sálfræði barna, unglinga- og fjölskyldna og þroskahömlunar, taugasálfræði og/eða endurhæfingar.

Auk þess þarf að ljúka tólf mánaða verklegri þjálfun, að loknu framhaldsnámi (cand.psych. námi) undir leiðsögn sálfræðings, á viðurkenndum stofnunum eða starfsstofum sem landlæknir viðurkennir.

Til að öðlast sérfræðileyfi í sálfræði og rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan sálfræði og starfa sem slíkur hér á landi þarf viðkomandi að hafa
  • lokið formlegu viðurkenndu sérfræðinámi, að loknu framhaldsnámi (cand.psych.) þ.e. diplómanámi (60 ECTS) eða námi hliðstæðu diplóma-, meistara- eða doktorsnámi í sérgrein innan sálfræði frá viðurkenndum háskóla eða háskólastofnun og
  • starfað sem svarar til að minnsta kosti þremur árum í fullu starfi sem sálfræðingur samhliða eða að loknu námi undir leiðsögn sálfræðings með sérfræðileyfi eða annars heilbrigðisstarfsmanns með sambærilega sérþekkingu innan viðkomandi sérgreinar og
  • fengið handleiðslu sálfræðings með sérfræðileyfi eða annars heilbrigðisstarfsmanns með sambærilega sérþekkingu í viðkomandi sérgrein á sérsviðinu í að minnsta kosti 50 tíma.