Meðferð

Hlutverk sálfræðinga
Viðtal

Hlutverk sálfræðinga í endurhæfingunni á Reykjalundi snýr einkum að sálfræðilegu mati, sálfræðimeðferð, ráðgjöf og fræðslu. Sálfræðingar Reykjalundar taka þátt í þverfaglegum teymisfundum, markmiðsfundum, fjölskyldufundum, fræðslu til vinnustaða eða skóla, sinna forviðtölum og eftirfylgd og koma að rannsóknum og þróunarvinnu s.s. gerð HAM meðferðarhandbóka. Sérfræðingar í klínískri sálfræði veita handleiðslu til sálfræðinema, annarra sálfræðinga og HAM-meðferðaraðila.

Sálfræðimat 

Sálfræðilegt mat getur falið í sér mat á andlegri líðan, persónuleika, vitsmunaþroska, námserfiðleikum, athyglisbresti, taugasálfræðilegum þáttum eða vitrænni getu. Sálfræðilegt mat getur hjálpað til við að setja raunhæf markmið í endurhæfingunni og auðveldar val á leiðum eftir útskrift þar sem máli skiptir að taka rétta stefnu. Í sálfræðimati eru oft notuð sálfræðipróf, matskvarðar, spurningalistar og sérstök taugasálfræðileg próf. Sérfræðingur í taugasálfræði sér um taugasálfræðilegt mat.

Meðferð

Í meðferðarvinnu er aðallega stuðst við hugræna atferlismeðferð byggða á kenningum Aaron T. Beck. Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár í tengslum við ýmsan heilsuvanda, en þó einkum þunglyndi og kvíða. Rannsóknir sýna að HAM er gagnleg aðferð til að ná og viðhalda bata.

Í hugrænni atferlismeðferð eru kenndar aðferðir til að takast á við þunglyndi og kvíða sem fólk getur gripið til hvenær sem á þarf að halda. Markmiðið er að draga úr neikvæðum hugsunum og auka virkni. HAM hefur þróast í margar áttir og er einnig að nýtast vel meðal annars varðandi verkjavandamál, offitu, svefnvanda, lágt sjálfsmat, að takast á við langvinn veikindi og áföll. Einnig hefur á síðari árum fléttast inn í HAM fleiri nálganir s.s. núvitund (Mindfulness), þjálfun svengdarvitundar (Appetite Awareness training), þjálfun samkenndar (Compassion Focused Therapy) og að vinna með viðhorf til hugsana (Metacognitive Therapy).